Víkverji veltir stundum fyrir sér hvort sá dagur muni einhvern tíma renna upp að kettir og jólatré lifi saman í sátt og samlyndi. Munu kettir einhvern tíma geta beislað sitt einlæga hatur á slíkum trjám?

Víkverji veltir stundum fyrir sér hvort sá dagur muni einhvern tíma renna upp að kettir og jólatré lifi saman í sátt og samlyndi. Munu kettir einhvern tíma geta beislað sitt einlæga hatur á slíkum trjám?

Víkverji hefur haldið kött frá því að hann var lítill drengur og hefur því mikla reynslu af þessu eilífa stríði þessara loðnu vina okkar við jólatré. Köttur Víkverja bíður færis á hverju ári til þess að fella tréð eftir að það hefur verið skreytt. Allar tilraunir heimilismanna til þess að forða trénu frá reiði kattarins eru dæmdar til að mistakast. Um leið og einhver lítur af trénu í þeirri trú að kötturinn sé að sinna erindum úti í bæ skýst hann eins og eldibrandur fram á sjónarsviðið og tekur undir sig árásarstökk og fellir tréð.

Kötturinn hafði yfirburðarsigur í viðureign við tréð í fyrra. Úrslitin urðu 7-1 þegar allt var yfirstaðið. Kötturinn fékk á sig mark þegar þyngdaraflið gerði að verkum að sjálft tréð féll á hann og olli töluverðu hnjaski. Kötturinn var óvígur og haltrandi í nokkra daga en bætti það svo upp með vel lukkuðum árásum á einu og sama kvöldi.

Í ár eru leikar ákaflega ójafnir þar sem kettinum hefur borist óvæntur liðsauki í baráttunni við jólatréð. Hér er á ferðinni 14 mánaða sonur Víkverja sem byrjaði að ganga á tveim fótum óstuddur á sama tíma og aðventan gekk í garð. Drengurinn deilir þessu áhugamáli með kettinum og reynir umsvifalaust að fella tréð ef hann fær ráðrúm til.

Þannig að blessað jólatréð er í svipaðri stöðu og Pólland: Það stendur berskjaldað gagnvart óvinunum úr tveim áttum. En þrátt fyrir þennan hamagang hefur Víkverji lært að sætta sig við þetta ástand og telur hann í raun ómissandi þátt í jólaundirbúningnum.