Herman Van Rompuy
Herman Van Rompuy
Aðildarríki evrusvæðisins gætu fengið á sig sektir fyrir að fara ekki eftir reglum myntsvæðisins sem næmu allt að 0,5% af landsframleiðslu þeirra samkvæmt nýjum tillögum sem framkvæmdastjórn ESB vinnur nú að.

Aðildarríki evrusvæðisins gætu fengið á sig sektir fyrir að fara ekki eftir reglum myntsvæðisins sem næmu allt að 0,5% af landsframleiðslu þeirra samkvæmt nýjum tillögum sem framkvæmdastjórn ESB vinnur nú að. Þetta var haft eftir Herman Van Rompuy, forseta ráðherraráðs ESB, í hollenskum fjölmiðlum í gær. Hann segir að verið sé að þróa mælikvarða til að meta efnahagsstöðu aðildarríkjanna og mun framkvæmdastjórnin styðjast við nýja mælikvarða til þess að meta stöðu mála í hagkerfum evruríkjanna. Komi efnahagsleg vandamál í ljós muni framkvæmdastjórnin veita ráðleggingar um hvernig eigi að leysa þau. Fari viðkomandi ríki ekki eftir þeim ráðleggingum verður þeim refsað. Refsingarnar munu felast í að stjórnvöldum verði gert skylt að leggja til hliðar fjárupphæðir til tryggingar og ennfremur er um að ræða sektargreiðslur sem geta numið á bilinu 0,2-0,5% af landsframleiðslu viðkomandi ríkis. Þrátt fyrir að heimildir séu til staðar að sekta ríki sem gerast brotleg við Maastricht-skilyrðin hefur því úrræði aldrei verið beitt.

ornarnar@mbl.is