[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jóhann Diego Arnórsson. Vestfirska forlagið 2010. 160 bls.

Mikilvægt er að halda sögunni til haga, að minnsta kosti því sem á einhvern hátt hefur markað skil. Margir hafa heyrt um lúðuveiðarana frá Massachusetts í Bandaríkjunum sem sóttu á Íslandsmið undir lok nítjándu aldarinnar en saga þeirra hefur þó aldrei verið skráð sem vert er. Nú hefur sjósókn þeirra kappa hins vegar verið færð til bókar í ágætri bók; Undir miðnætursól – amerískir lúðuveiðarar við Ísland 1884-1897.

Kapparnir sem lögðu á hin fjarlægu mið hér við land voru kallaðir Gloucestermenn og sigldu hingað á skonnortum. Voru sumarlangt við veiðar og gerðu lengst af út frá Þingeyri.

Og svo sem eðlilegt er og alltaf gerist tókust kynni meðal sjómannanna og íslenskra stúlkna og ávöxturinn varð, skv. kirkjubókum, alls átta börn sem síðan hafa eignast sína afkomendur. Þeirra á meðal er höfundur bókarinnar, Jóhann Diego Arnórsson.

Mikil heimildavinna liggur að baki samantekt bókarinnar svo tala má um afreksverk. Logbækur skipstjóra skonnortanna eru höfundi djúgar, þar sem fróðlega er lýst aðbúnaði, aflabrögðum, veiði, samskiptum við Íslendinga og fleira. Úr þessu og öðrum heimildum vinnur höfundur, dregur ályktanir og segir að skipverjar frá mörgum stærstu útgerðarfyrirtækjum hafnarbæjarins Gloucester hafi gert það „virkilega gott,“ eins og komist er að orði. Og fyrir útgerðina í Massachusetts skipti lúðuveiðin miklu en hún lagðist af um 1900.

Þrátt fyrir að bók Jóhanns Diego um lúðuveiðarana armerísku sé vel lukkuð og fróðleg hefði sitthvað mátt betur gera. Höfundur hefði að ósekju mátt ydda texta bókarinnar betur, sleppa ýmsu og setja efni bókarinnar betur í samhengi við samtímann sinn – til að mynda sjósókn Íslendinga undir lok 19. aldarinnar. Slíkur samanburður hefði skerpt á efni bókarinnar. Sviðsetning í lýsingum af einstaka atburðum hefði sömuleiðis verið til bóta og lyft textanum. Þá hefði umbrot og útlit bókarinnar mátt vera í stíl við efnið. Bókbandið hæfir fremur ársskýrslu fyrirtækis en riti með þjóðlegum fróðleik enda þótt lúðusagan sé öll hin læsilegasta.

Sigurður Bogi Sævarsson

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson