Brúnheiðir Þessi mynd Antons hefur vakið mikla athygli meðal fuglaáhugamanna hér á landi á vefnum fuglar.is.
Brúnheiðir Þessi mynd Antons hefur vakið mikla athygli meðal fuglaáhugamanna hér á landi á vefnum fuglar.is. — Ljósmynd/Anton Ísak Óskarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingibjörg Rósa Björnsdóttir ingibjorgrosa@mbl.is Myndir af flækingnum brúnheiði hafa vakið nokkra athygli á vefnum fuglar.is undanfarið en ljósmyndarinn er hinn 14 ára gamli Anton Ísak Óskarsson.

Ingibjörg Rósa Björnsdóttir

ingibjorgrosa@mbl.is

Myndir af flækingnum brúnheiði hafa vakið nokkra athygli á vefnum fuglar.is undanfarið en ljósmyndarinn er hinn 14 ára gamli Anton Ísak Óskarsson. Anton hefur mikinn áhuga á ljósmyndun og þá sérstaklega fuglaljósmyndun. „Ég veit ekki alveg hvernig þetta þróaðist. Ég fór bara með frænda mínum hringinn í kringum landið í fyrra og þá sáum við nokkra fugla og þetta byrjaði einhvern veginn þannig, ég fór að taka myndir af þeim.“

Anton fékk áhugann á ljósmyndun fyrst og svo kviknaði fuglaáhuginn í kjölfarið. „Í fyrra fékk ég fyrstu myndavélina mína og var bara að taka allskonar myndir en síðan fékk ég stóra linsu og byrjaði að einbeita mér að fuglum.“

Hefur myndað tíu flækinga

Fyrir hafði Anton ekki haft neina sérstaka fugladellu. „Ég fór bara að prófa að taka fuglamyndir með stóru linsunni. Það er mjög skemmtilegt að taka myndir af þeim og svo er mikið af fuglum í garðinum hérna heima hjá mér,“ segir Anton sem býr í Hlíðahverfi í Reykjavík. „Það kom flækingur hingað í fyrravetur, þegar ég fór að skoða málið fann ég út að þetta var hettusöngvari,“ en myndir af þeim fugli má sjá á Flickr-myndasíðu Antons. Brúnheiðirinn sást í vetur nálægt Hvaleyrarvatni í Hafnarfirði og heldur þar til enn. „Ég var sérlega heppinn með myndatökuna á brúnheiðinum, hann er sjaldgæfur flækingur en tíundi flækingurinn sem ég hef tekið myndir af núna í nóvember.“ Að sögn Antons er frekar erfitt að ná góðum myndum af svona ránfugli, þeir fljúgi oft ört á milli staða en sé komið að þeim sitjandi geti þeir setið kyrrir í langan tíma, svo lengi sem ljósmyndarinn fælir þá ekki með hreyfingum sínum. En ljósmyndun hlýtur að vera dýrt sport fyrir grunnskólanema? „Já, þetta er frekar dýrt allt saman en ég á ágætar græjur. Ég hef ekki farið á nein námskeið samt, svo afla ég mér upplýsinga um fuglana hjá fagmönnum. Það getur þó vel verið að ég læri ljósmyndun.“ Anton segist oft fara á stjá um helgar til að mynda fuglana og fylgi stundum fuglaáhugamönnum eftir en foreldrar hans komi stundum með líka. „Þau fengu áhuga á fuglum eftir að ég byrjaði að taka myndir af þeim.“

FLÆKINGURINN BRÚNHEIÐIR

Heldur til í Hafnarfirðinum

Brúnheiðir (Circus aeruginosus) er af haukaætt og finnst víða í Evrópu og Asíu en er sjaldgæfur flækingur á Íslandi. Einn slíkur hefur dvalið í nágrenni Hvaleyrarvatns undanfarnar vikur og reyna fuglaáhugamenn að fylgjast með honum. Hann er ránfugl og segir Anton Ísak að fólk hafi hent æti fyrir fuglinn, aðallega hráu kjöti, og þannig sé hægt að fylgjast með honum um stund meðan hann matast. Anton náði bestu myndunum af fuglinum við slíkar aðstæður en smellti einnig af þegar brúnheiðirinn fór á flug. Hann segir þær myndir þó ekki hafa heppnast nógu vel. Myndir Antons af brúnheiðinum og öðrum fuglum má finna á Flickr-síðunni www.flickr.com/photos/antonfuglar.