Reynir Þorsteinsson
Reynir Þorsteinsson
Eftir Reyni Þorsteinsson: "Umræðan um sjávarútvegsmál hér á landi er í besta falli tómt rugl. Almenningur gapir eins og gullfiskur yfir málflutningi atkvæðasnapsins."

Sjávarútvegsmál á Íslandi eru í algjörum ólestri, núverandi sjávarútvegsráðherra er eins og fíll í glervörubúð og umræðan almennt er í besta falli tómt rugl. Hinir ýmsu þingmenn, með Ólínu Þorvarðardóttur í broddi fylkingar, fara um dreifðar byggðir landsins og reyna þar að snapa hugmyndum sínum um afskriftir á aflaheimildum fylgi.

Þetta er einhver ómerkilegasta leið sem ég hef áður orðið vitni að til að snapa sínum málum fylgi og hef þó marga fjöruna sopið í þeim efnum. Boðskapur þessa liðs er alltaf sá sami: Kvótakerfið hefur farið illa með mörg byggðalögin, gjafakvótasægreifarnir sitja á aflaheimildunum og á leigumarkaði deila þeir og drottna.

Umræðan um sjávarútvegmál hefur undanfarinn áratug verið álíka gáfuleg og annað sem úr þingheimsátt má búast við. Fyrst og fremst hafa menn reynt að spila á alla verstu eiginleika mannsins, öfund, illkvittni og meinfýsni.

Það er stjórnmálamönnum eðlislægt að bulla, en það er þó algjör óþarfi hjá almenningi að apa það upp eftir þeim. Sannleikurinn er sá að kvótakerfið hefur ekki farið illa með hinar dreifðu byggðir landsins, heldur hin taumlausa ónáttúra í þorskinum að fara ekki eftir excel-útreikningum Hafrannsóknastofnunar.

Þegar kvótakerfið var fyrst sett á, var heildarúthlutun í þorski um 400 þúsund tonn, en er nú um 160 þúsund tonn. Þessi 60% niðurskurður á aflaheimildum í þorski er höfuðvandinn og það sem ýtt hefur undir fækkun í skipaflotanum og lokun fiskvinnslustöðva.

Ég gef mér að hver einasti maður sjái það í hendi sér, að undir þessum taumlausa niðurskurði verður ekki rekið frystihús og togari í hverju einasta plássi. Fækkun báta og vinnsluhúsa er í beinu hlutfalli við skerðingar aflaheimilda í þorski. Liðsmenn Frjálslynda flokksins hafa staglast á því að aldrei hefði átt að heimila framsal aflaheimildanna og jafnvel gengið svo langt að skrifa bankahrunið á framsalsheimildina.

Hvernig halda menn að umhorfs væri í höfnum landsins í dag, ef framsalið hefði ekki verið leyft á sínum tíma? Þær væru fullar af hálfsokknum eikarpungum og misjafnlega mikið ryðguðum austur-þýskum stálkláfum. Eftir rúmlega tveggja áratuga stanslausan niðurskurð væri engin glóra lengur í því að gera út stóran hluta flotans og ekkert annað hægt að gera en leyfa þessum kláfum að grotna niður og jafnvel mara hálfir í kafi, hangandi í landfestunum.

Að heimila framsalið var nauðvörn stjórnvalda þess tíma, greinin öll var rekin með áður óþekktu tapi og ekki óvanalegt að margar vikur liðu án þess að starfsfólk sjávarútvegfyrirtækja fengi útborgað. Man ég t.d. eftir einu tilviki þar sem liðu 12 vikur á milli útborgunardaga, en það skal áréttað að á þeim tíma var greitt út vikulega.

Enn eitt „trompið“ sem niðurrifsöflin hafa ítrekað spilað út er gjafakvótaumræðan. – Sægreifarnir fengu þetta afhent á silfurfati og liggja svo á þessu eins og snákar á gulli. Ég hef lengi starfað í þessum geira og þekki engan sem hefur fengið aflaheimildirnar gefnar. Maður sem skuldar fleiri hundruð milljónir og jafnvel fleiri milljarða vegna kvótakaupa hefur varla fengið hann gefins er það? Hingað til hefur enginn viljað svara því hver átti að fá kvótann úthlutaðan á sínum tíma, ef ekki útgerðirnar sem þá voru í rekstri.

Þróun sjávarútvegs hér á landi endurspeglar þá staðreynd að aðgangurinn að auðlindinni er takmarkaður. Skipum og fiskvinnsluhúsum hefur jafnt og þétt fækkað, hátt verð aflaheimilda hefur ýtt mönnum út í frekari vöruþróun og vöruvöndun og er arðurinn til heilla fyrir þjóðarbúið óumdeildur. Það eina sem ekki verður talið þjóðinni til heilla í þessum efnum er umræðan. Hún hefur alið af sér allskyns snillinga sem séð hafa sér leik á borði og í krafti ádeilna sinna á kvótakerfið tekist að troða sér inn á Alþingi Íslendinga.

Þar hefur þetta lið reynt að hanga eins og hundar á roði með ádeiluna á kvótakerfið eitt að vopni.

Í umhverfi því sem sjávarútvegur hér þarf að starfa, gerist hið óumflýjanlega, reksturinn verður vandasamari, straumlínulagaðri og með tíð og tíma er hismið skilið frá. Eftir sitja þeir sem hafa þekkinguna, getuna og viljann til að sækja björg í bú, svo við hinir getum haldið áfram að naga blýanta og sorterað rauðan pappír frá bláum.

Það hefur margoft verið reynt að hirða verðmæti frá þeim sem þau hafa og endurúthluta til þeirra sem aldrei komust alla leið, nú síðast í Zimbabwe.

Ég þarf varla að hafa mörg orð um þá gáfulegu tilraun Mugabe forseta og hvernig hún endaði.

Höfundur er skipasali.

Höf.: Reyni Þorsteinsson