Áfangi Hlín Árnadóttir tók á móti viðurkenningu fyrir frábært starf í þágu Bjarkar. Hér er hún í faðmi lærimeyja sinna þar sem henni líður best en hún er yfirþjálfari allra flokka félagsins.
Áfangi Hlín Árnadóttir tók á móti viðurkenningu fyrir frábært starf í þágu Bjarkar. Hér er hún í faðmi lærimeyja sinna þar sem henni líður best en hún er yfirþjálfari allra flokka félagsins. — Ljósmynd/Þór Ólafsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtalið Ólafur Már Þórisson omt@mbl.is „Ég áttaði mig nú bara á því í vetur hvað ég er búinn að þjálfa lengi. Það kom til mín lítil stelpa með gamalt blað sem við gáfum alltaf út og þar stóð hvenær ég byrjaði.

Viðtalið

Ólafur Már Þórisson

omt@mbl.is

„Ég áttaði mig nú bara á því í vetur hvað ég er búinn að þjálfa lengi. Það kom til mín lítil stelpa með gamalt blað sem við gáfum alltaf út og þar stóð hvenær ég byrjaði. Ég hafði ekkert leitt hugann að því,“ sagði Hlín Árnadóttir, spurð að því hvort hún áttaði sig á afrekinu á bak við það að þjálfa í fimleikum í 40 ár. Á dögunum heiðraði Fimleikafélagið Björk, sem var stofnað fyrir 59 árum, Hlín Árnadóttur yfirþjálfara hjá félaginu fyrir 40 ára starfsferil.

„Þessi ár hafa verið yndisleg, alltaf gaman, nýjar áskoranir og alltaf hægt að gera betur. Þetta er eiginlega lífsverkefni með börn og unglinga. Ef ég fer í vinnuna þreytt eða pirruð kem ég endurnærð heim. Börnin gefa svo mikið af sér.“

Þetta byrjaði allt árið 1970 þegar knattspyrnufélagið Haukar sóttust eftir því að fá Hlín til liðs við sig og stofna fimleikadeild. Hlín var þá nýlega útskrifuð sem íþróttakennari. „Ég var alveg til í það en um sama leyti kom Þorgerður Gísladóttir, sem hafði stofnað Bjarkirnar tæpum tuttugu árum áður, að máli við mig. Hún vildi frekar efla starf Bjarkar sem var komið á það stig að vera frúarleikfimishópur frekar en fimleikadeild.“

Á þessum tíma voru aðeins þrjú fimleikafélög á landinu og því að vissu leyti óplægður akur sem lá fyrir Hlín. „Við komum svo einum fimleikahóp í gang og það hreinlega fylltist allt af iðkenndum. Það var mikil barátta á þessum tíma við að halda þeirri litlu aðstöðu sem félagið hafði í húsunum. Ég byrjaði að þjálfa í litla íþróttahúsinu í Lækjarskóla. Það voru ekki nein áhöld og því byrjaði þetta bara eins og íþróttakennsla í skólum.“

Betur á sig komin fyrir 15 árum.

„Aðstaðan hefur breyst mikið, sérstaklega á síðustu 7 árum eftir að við fengum sérútbúið fimleikahús. Þá erum við einnig að taka yngri börn í þjálfun en núna eru krakkar alveg niður undir 4 ára aldur að æfa. Það er mjög gott fyrir þau því ég sé mikla breytingu á ástandi barna nú og fyrir 15 árum. Þau voru mikið betur á sig komin líkamlega á þeim tíma og það skýrist fyrst og fremst af hreyfingu. Þau gengu í skólann og þau voru úti að leika sér í stað þess að vera inni í tölvunni eða að horfa á sjónvarpið. Mér finnst samt eins og það sé að breytast aftur, krakkar eru líka farin að stunda fleiri en eina íþrótt.“

Samstaða og samvera stendur upp úr

Hlín segir ekki hægt að gera upp á milli iðkennda sinna, enda gerir maður ekki upp á milli barna sinna. Hún nefnir þó að Elva Rut Jónsdóttir hafi náð hvað lengst og verið hársbreidd frá því að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í Sydney. „Ég rifjaði það upp þegar ég tók við viðurkenningunni að það sem stendur upp úr eru ekki endilega sigrarnir, heldur frekar fjáraflanir, æfingabúðir og ferðir sem við höfum farið saman. Baráttumálin standa líka upp úr, að berjast fyrir að eiga eitthvað, gera betur og þessi samstaða sem fylgir starfinu og samvera með börnunum er það sem raunverulega stendur upp úr.“

Að sjá ávöxt vinnunnar er fullnægjandi

Eftir að hafa þjálfað börn og unglinga í 40 ár gæti einhver haldið að Hlín, sem varð 65 ára á þessu ári, væri orðin þreytt og gæti hugsað sér að sjá fyrir endann á þjálfaraferlinum. Sú er hinsvegar ekki raunin, hún vill halda áfram eins lengi og mögulegt er.

„Mér finnst frábært að taka við litlum krökkum að hausti og þau vita í raun ekkert út á hvað þetta gengur. Þetta byrjar með að þau læra hvernig á að haga sér í salnum og hvernig á að koma fram við aðra. Síðan takast þau á við æfingarnar. Að sjá þau breytast úr því að þora varla að sleppa mömmu í það að taka þátt í stórum sýningum og fyllast sjálfsöryggi og samræma huga og hönd, gefur mér mikið. Ég er hraust og í góðu formi og því vil ég halda áfram meðan ég hef gaman af þessu og á meðan þau vilja hafa mig.“