Tekist á Guðmundur Hólmar Helgason fékk óblíðar viðtökur hjá varnarmanni norska landsliðsins í gær.
Tekist á Guðmundur Hólmar Helgason fékk óblíðar viðtökur hjá varnarmanni norska landsliðsins í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Íslenska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 21 árs og yngri, gerði jafntefli við Norðmenn í vináttulandsleik sem fram fór í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði í gær, 25:25. Jafnt var í hálfleik, 12:12.

Íslenska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 21 árs og yngri, gerði jafntefli við Norðmenn í vináttulandsleik sem fram fór í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði í gær, 25:25. Jafnt var í hálfleik, 12:12.

Liðin áttust einnig við á laugardaginn á sama stað. Þá hafði íslenska liðið betur, 29:27, eftir að hafa verið einu marki undir að loknum fyrri hálfleik, 13:12.

Þriðji og síðasti leikur liðanna fer fram á Selfossi í kvöld og hefst kl. 19.30. Leikirnir eru liður í undirbúningi beggja landsliða fyrir undankeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer víðsvegar um Evrópu helgina 7.-9. janúar nk. Af þeim sökum hafa þjálfarar beggja liða gefið öllum leikmönnum tækifæri á að spreyta sig í leikjunum og það hefur boðið upp á nokkrar sveiflur í þeim.

Guðmundur Árni Ólafsson, Guðmundur Hólmar Helgason, Halldór Guðjónsson og Oddur Gretarsson voru markahæstir í íslenska liðinu í leiknum gær. Hver skoraði þrjú mörk. Bjarki Már Elísson, Ragnar Jóhannsson, Stefán Rafn Sigurmannsson og Tjörvi Þorgeirsson skoruðu tvö mörk hver.

Guðmundur Árni var einnig atkvæðamikill í fyrsta leiknum og skoraði sex mörk ásamt Heimi Óla Heimissyni og Ragnari Jóhannssyni. Ólafur Guðmundsson skoraði þá fjögur mörk og þeir Bjarki Már og Guðmundur Hólmar komu næstir með tvö mörk hvor.