Sigurður Hjartarson
Sigurður Hjartarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigurð Hjartarson. Melrakkasetur Íslands 2010. 157 bls.

Það hlægir mig:

Þó mun hér koma

úr ætt minni

annar verri,

hann mun menn gera

margan sauðlausan

og aldri upp gefa

illt að vinna.

Úr Skaufhalabálki

Hatur íslenskra bænda á rebba er líklega jafngamalt landnáminu. En tilfinningarnar stundum dálítið tvíbentar, örlar á aðdáun, eins og sjá má í kvæði Svarts Þórðarsonar á Hofstöðum í Þorskafirði á 15. öld, þar sem hann talar fyrir munn gamals og dauðvona refs.

Sigurður Hjartarson birtir margt hnýsilegt í þessari litlu bók, m.a. mikið af skáldskap um refinn, málshætti og sagnir. Einnig aragrúa nafna sem hann hefur hlotið og ekki öll fögur. Skolli, lágfóta, dýrbítur eru þekkt en hvernig líst mönnum á meinvarg, sauðskratta og blóðsvelg? Dauðasynd refsins var að hann keppti við mennina um mat og hikaði ekki við að taka til sín af réttunum þegar sauðkindin bættist á matseðilinn þar sem áður voru aðallega fuglar, egg og sjávarfang.

Bókin hefði mátt vera dálítið skipulegri og yfirlesturinn betri. En Sigurður og félagar hans í Tófuvinafélaginu eiga þakkir skildar fyrir að gerast málsvarar dýrs sem nam hér land nokkur þúsund árum á undan mönnum. Meðferðin á þessu þrautseiga og snjalla rándýri hefur oft verið skelfileg, öllum ráðum var beitt til að drepa það. Fyrir tíma byssunnar var líklega mest beitt gildrum en ekki vissi ég að menn hefðu þegar fyrir nokkrum öldum eitrað fyrir refi. Og ein aðferðin við vetrarveiðar er svipuð þeirri sem menn nota nú stundum við að veiða mink í rör. Gerð var hola í þéttan snjó, „hál og klökuð að neðanverðu með litlu vatni“. Gatið hulið með þunnu skæni en þar ofan á var agn, dýrið datt í holuna þegar það tók agnið og kemst ekki upp aftur.

Dýravernd var ekki komin til sögunnar. En önnur fórnarlömb tófu en jarmandi jólamaturinn okkar, t.d. ýmsir fuglar og ungar þeirra, geta líka kvartað yfir óréttlæti tilverunnar. Á gæsin minni rétt til lífs en rebbi?

Seinni hluti bókarinnar snýst mjög um sögu Hins íslenzka tófuvinafélags, sem var stofnað 1977 og baráttu þess gegn taumlausu refadrápi, þúsundir féllu á hverju ári langt fram á síðustu öld. Áfangasigur vannst þegar Íslendingar undirrituðu loks 1994 Bernarsáttmálann um vernd villtra plantna og dýra. Frásagnir fjölmiðla af „hetjudáðum“ þeirra sem rekist hafa byssulausir óvænt á ref og murkað úr honum lífið eru ókræsileg lesning. En Sigurður lýsir líka með nokkurri samúð frægri refskyttu, Theódór Gunnlaugssyni frá Bjarmalandi. Hann hafi ekki bara verið refabani heldur líka skilið og þekkt tófuna betur en allir aðrir og „bar ætíð virðingu fyrir sjálfsbjargarviðleitni hennar“.

Tófuvinir blanda oft saman gamni og alvöru. Erfitt er samt að verja þá tillögu þeirra að leyft verði að flytja öll skoffín til Brussel, það verði til hagsbóta fyrir gjörvallt Evrópusambandið. Hrekklaus, íslensk skoffín til Brussel! Þau ættu engan séns, þetta jaðrar við kvalalosta.

Áherslan á göfugan uppruna íslenska fjallarefsins er líka uggvænleg. Hvað með minkinn, er ekki ljóst að hann þarf aðstoð reyndra og duglegra ímyndarsmiða? Allir eru á móti honum, minkurinn er hræbjörn og svínhöfða okkar tíma. Hann kom hingað miklu seinna en refurinn, rétt er það. Vonandi eru tófuvinir ekki haldnir fordómum gagnvart nýbúum eða hvað?

Kristján Jónsson

Höf.: Kristján Jónsson