Örn Arnarson ornaarnar@mbl.is Þungavigtarmenn í röðum demókrata í Bandaríkjunum segjast fullvissir um að Bandaríkjaþing muni staðfesta á næstunni nýjan samning milli Bandaríkjanna og Rússlands um fækkun kjarnavopna.

Örn Arnarson

ornaarnar@mbl.is

Þungavigtarmenn í röðum demókrata í Bandaríkjunum segjast fullvissir um að Bandaríkjaþing muni staðfesta á næstunni nýjan samning milli Bandaríkjanna og Rússlands um fækkun kjarnavopna. Barack Obama Bandaríkjaforseti og Dmitri Medvedev, forseti Rússlands, undirrituðu samkomulagið í mars en um er að ræða víðtækasta afvopnunarsamning ríkjanna í tuttugu ár. Það kveður á um að ríkin tvö fækki kjarnavopnum sínum um 30% og samkvæmt því má hvorugt ríki eiga fleiri en 1550 kjarnaodda.

Staðfesting samningsins hefur verið helsta áherslumál Obama í utanríkismálum að undanförnu. Hinsvegar er tvísýnt hvort meirihluti sé fyrir samþykki hans í öldungadeild þingsins. Til þess að samkomulagið fáist staðfest þarf 67 atkvæði í öldungadeildinni og þar af leiðandi þarf að tryggja stuðning einhvers hluta af þingmönnum repúblikana. Andstaða er við samkomulagið meðal repúblikana meðal annars vegna þess að þeir telja það koma í veg fyrir uppbyggingu eldflaugavarnakerfa á borð við það sem stefnt er að að byggja upp í Evrópu.

Joe Biden varaforseti ítrekaði í sjónvarpsviðtali í gær að ríkisstjórn Obama myndi byggja upp slíkt kerfi í Evrópu og að samingurinn kæmi ekki í veg fyrir slíkt. Ennfremur sagðist varaforsetinn þess fullviss að öldungadeildin myndi staðfesta hann. Þó svo að demókratar hafi reynt að sannfæra repúblikana um þetta hafa margir þeirra enn uppi efasemdir. Þannig segir leiðtogi þeirra í öldungadeildinni, Mitch McConnell, að engin trygging sé fyrir því að Rússar eða þá önnur Evrópuríki túlki samninginn á þann veg að hann útiloki eldflaugavarnir.