Verknám Aðstaða til verknáms við Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki stórbatnar með nýrri viðbyggingu.
Verknám Aðstaða til verknáms við Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki stórbatnar með nýrri viðbyggingu. — Ljósmynd/Þorkell Þorsteinsson
Björn Björnsson bgbb@simnet.is Sauðárkrókur Nýverið var vígt nýtt og glæsilegt húsnæði verknámsdeildar Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki og það formlega afhent skólanum til afnota.

Björn Björnsson

bgbb@simnet.is

Sauðárkrókur Nýverið var vígt nýtt og glæsilegt húsnæði verknámsdeildar Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki og það formlega afhent skólanum til afnota. Hið nýja hús er tæplega 580 fermetrar og með eldri hluta verknámshússins, sem í sumar var tekinn til gagngerrar endurnýjunar, er heildarstærð verknámsdeildar um 1.700 fm.

Fullyrða má að verknámshúsið, endurnýjað eldra húsnæði ásamt nýbyggingunni, hafi gerbreytt allri aðstöðu til kennslu þeirra verknámsgreina sem kenndar eru við skólann.

Við athöfnina rakti Guðmundur Guðlaugsson, fyrrverandi sveitarstjóri, byggingarsögu hússins og farsæl samskipti við þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sem ýtti byggingarframkvæmdunum úr vör. Sagði Guðmundur þennan byggingartíma ævintýri líkastan, öll mál leyst á farsælan hátt, samskipti við eftirlitsaðila og verktaka með eindæmum góð, og öll undirbúningsvinna verkfræðistofunnar Stoðar, sem sá um útboðsgögn og verklýsingar, með þeim ágætum að allar verk- og tímaáætlanir hefðu staðist og auka- og viðbótarverk nánast engin.

Undir þessi orð Guðmundar tók byggingarstjóri Eyktar ehf., Pétur Guðmundsson, sem sagði sína menn meðal annars hafa óttast erfiða veðráttu hér nyrðra, en raunin hefði verið sú að nánast engar tafir hefðu orðið vegna þess og því hefðu allar áætlanir staðist. Afhenti hann skólanum 200 þúsund króna gjafabréf til búnaðarkaupa.

Þriðja Fab-lab stofan

Karl Kristjánsson, formaður byggingarnefndar, flutti kveðjur núverandi menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, og afhenti hann skólameistaranum Jóni Fr. Hjartarsyni húsnæðið formlega til afnota. Sagðist Karl vænta þess að þessi skóli yrði meðal fyrstu valkosta þeirra nemenda sem velja sér verkgreinanám í framtíðinni.

Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, kynnti nýja Fab-lab stofu sem fengið hefur inni í nýbyggingunni og starfar í nánum tengslum við skólann. Er þetta þriðja stofan sem sett er upp hérlendis og nefndi Þorsteinn nokkur verkefni sem nú væri unnið að á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar, en einnig að hin nýja Fab-lab stofa yrði nýtt til kennslu á öllum skólastigum í héraðinu. Um er að nokkurs konar stafræna smiðju eins og kemur fram hér til hliðar.

Þá fluttu ávörp og heillaóskir Ásta Pálmadóttir sveitarstjóri, Knútur Aadnegard verktaki, sem annaðist endurgerð eldra húsnæðisins, Lára Stefánsdóttir, skólameistari Menntaskóla á Tröllaskaga, Snorri Styrkársson frá Hátæknisetri Íslands og Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri sem færði skólanum að gjöf tvær milljónir króna frá Kaupfélagi Skagfirðinga.

Jón Fr. Hjartarson skólameistari sagðist vera þakklátur og stoltur í senn þegar þessum glæsta áfanga væri náð. Sagði hann frá stórum gjöfum Iðnsveinafélags Skagafjarðar sem kæmu starfsemi skólans mjög vel. Þakkaði Jón öllum gefendum góðar og dýrmætar gjafir og þakkaði einnig öllum verktökum og aðstandendum framkvæmdanna fyrir mikla og góða fagmennsku.

HVAÐ ER FAB-LAB STOFA?

Má búa til hvað sem er

Fab-lab (e. Fabrication Labratory) er stafræn smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er, segir á vef Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Fyrsta slíka smiðjan var sett upp í Eyjum sumarið 2008. Á Fab-lab stofu gefst einstaklingum og fyrirtækjum tækifæri til að þjálfa sköpunargáfu og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með aðstoð stafrænnar tækni. Nánari upplýsingar má nálgast á vefnum www.nmi.is.