Sögufróður Rögnvaldur Guðmundsson ferðamálafræðingur.
Sögufróður Rögnvaldur Guðmundsson ferðamálafræðingur. — Morgunblaðið/Ernir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sögukort Íslands heitir safn korta með sögulegu ágripi úr hverjum landshluta sem gefið var út fyrir stuttu.

Árni Matthíasson

arnim@mbl.is

Fyrir stuttu kom út safn sögukorta á vegum Rannsóknar og ráðgjafar ferðaþjónustunnar, en forsvarsmaður þess fyrirtækis er Rögnvaldur Guðmundsson ferðamálafræðingur. Kortin eru í senn landakort og kort yfir helstu atburði sögunnar sem átt hafa sér stað í hverjum landshluta frá söguöld og fram á okkar daga. Eitt kortanna er Íslandskort, en hin skiptast í Suðvesturland, Vesturland, Vestfirði, Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland og Suðurland.

Rögnvaldur segir að aðdragandi verksins sé býsna langur; í raun megi segja að hugmyndin hafi kviknað þegar hann vann áþekkt kort fyrir Dalabyggð fyrir áratug. Það kort, sem var í minna broti, þótti svo vel heppnað að það hefur verið endurútgefið fjórum sinnum. „Síðan var ég beðinn um að gera kort fyrir Vesturland 2002 og það var í sama broti og kortin núna, A1. Í framhaldi af því fékk ég þá hugmynd að gefa út seríu, kort fyrir hvern landsfjórðung og gefa kannski út eitt kort á ári.“ Það sem reyndist meiri vinna en Rögnvaldur gerði sér grein fyrir, aukinheldur sem hann hafði ýmislegt annað að gera á þeim tíma. Fyrir vikið tók vinnan fimm ár og lauk loks í haust.

Stök eða öll saman

Kortin er hægt að kaupa stök fyrir hvern landshluta fyrir sig, en einnig er hægt að kaupa þau öll saman í sérstakri öskju. Rögnvaldur segist sjá það fyrir sér að fólk muni til að mynda vilja kaupa sér kort þegar það leggur upp í ferðalag á tiltekinn stað, „en svo hef ég séð það á sölunni frá því fyrstu kortin komu í sölu að fólk kaupir kort af þeim landshluta sem það er statt í og svo Íslandskortið stakt. Sá sem er staddur á miðju Suðurlandi virðist því helst hafa áhuga á að eignast kort af Suðurlandi og svo oft Íslandskortið að auki.“

Búið er að snara kortunum öllum á ensku og að sögn Rögnvaldar eru verið að þýða Íslandskortið á þýsku, aukinheldur sem hann hyggst gefa það kort út á fleiri tungumálum eftir því sem verkast vill.

Fundað með sögufróðum

Þeir vinna að verkinu og útgáfunni saman Rögnvaldur og Ingólf Björgvinsson sem teiknað hefur myndirnar á kortunum, en Rögnvaldur safnaði efni í textann á þeim. Hann segist hafa leitað til sögufróðra einstaklinga víða um land, farið í hvern landshluta og innt heimamenn eftir því sem merkast væri í sögu landshlutans. „Ég hélt 30 til 40 fundi víða um landið á meðan ég var að vinna að kortinu og þó stór hluti viðmælenda hafi verið karlar um sextugt þá lagði ég mig líka eftir að ræða við konur og ungt fólk til að fá sem mesta breidd í frásögurnar,“ segir Rögnvaldur, en hann fékk og aðstoð frá þeim Árna Björnssyni þjóðháttafræðingi, Jóhanni Óla Hilmarssyni fuglafræðingi og fleirum.