Höfundar Eyrún og Helgi: Erum líka undir áhrifum frá Mary Poppins og reynum að hafa nógu mikinn sykur og gaman með alvörunni.
Höfundar Eyrún og Helgi: Erum líka undir áhrifum frá Mary Poppins og reynum að hafa nógu mikinn sykur og gaman með alvörunni. — Morgunblaðið/Ernir
Kolbrún Bergþórsdóttir kolbrun@mbl.is Eyrún Ósk Jónsdóttir og Helgi Sverrisson eru höfundar bókarinnar L7 Hrafnar, sóleyjar og myrra . Aðalpersóna bókarinnar er hin þrettán ára Lára Sjöfn sem tekst á við lífið eftir mikinn sorgarvetur.

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Eyrún Ósk Jónsdóttir og Helgi Sverrisson eru höfundar bókarinnar L7 Hrafnar, sóleyjar og myrra . Aðalpersóna bókarinnar er hin þrettán ára Lára Sjöfn sem tekst á við lífið eftir mikinn sorgarvetur. Hún flækist inn í dularfulla atburðarás og þarf að bregða sér í hlutverk leikara, spæjara og hetju. Bókin er sú fyrsta í þríleik.

„Þetta er bók fyrir aldurshópinn 12-80 ára. Okkur langaði til að gera sögu sem höfðaði til breiðs hóps,“ segja Eyrún og Helgi. „Þetta er fyrsta bókin í þríleik og grunnstefið í öllum bókunum á að vera andlegt. Í þessari bók er dauðinn aldrei fjarlægur, en við erum líka undir áhrifum frá Mary Poppins og reynum að hafa nógu mikinn sykur og gaman með alvörunni. Þetta er ævintýra- og spennusaga.“

Bók og bíómynd

Spurð um verkaskiptinguna segja þau: „Það má segja að þetta sé eins og borðtennis, við erum með bolta sem við hendum endalaust á milli okkar. Við vinnum mikið, höfum líklega skrifað þessa bók sjö sinnum á þremur árum.“ Samtímis því að skrifa bókina skrifuðu þau kvikmyndahandrit eftir henni og segjast einnig hafa skrifað það sjö sinnum.

Kvikmyndin sem gerð er eftir bókinni verður frumsýnd í febrúar á næsta ári og Helgi og Eyrún leikstýra. Myndin var tekin upp í Hafnarfirði í fyrrasumar og skartar mörgum þjóðþekktum leikurum í aðalhlutverkum, Ladda, Eddu Björgvinsdóttur, Jóhönnu Jónasdóttur, Pétri Einarssyni, Önnu Kristínu Arngrímsdóttur, Sigríði Björk Baldursdóttur, Ísak Hinrikssyni og Victoríu Ferrel en hún fer með hlutverk Láru Sjafnar. „Það var opin áheyrnarprufa, 250 stelpur mættu og af þeim voru valdar tíu sem allar voru stórkostlegar leikkonur. Victoría stóð að lokum uppi sem leikkonan sem við vildum. Við byrjuðum að vinna með Victoríu í febrúar í fyrra og hún þurfti að fara í gegnum margs konar þjálfan, svo sem í parkúr og klettaklifri. Hún skilaði þessu af sér með miklum glans,“ segir Helgi og bætir við að leikarahópurinn hafi verið frábær. „Það var mikill heiður að vinna með þessu fólki og afskaplega ánægjulegt í alla staði.“

Skotskífuaðferð

Helgi segir kvikmyndina hafa verið tekna upp samkvæmt danskri vinnuaðferð sem gengur stundum undir nafninu skotskífuaðferð. „Þetta felur í sér að tökustaðirnir eru flestir, eða um 80 prósent, innan eins kílómetra radíuss og allir tökustaðir innan sjö kílómetra radíuss. Þessi aðferð hefur í för með sér að það fer lítill tími í akstur á milli staða, þetta er umhverfisvænt og skapar friðsæld og meiri ró í tökunum,“ segir Helgi.

Eyrún og Helgi eru byrjuð á bók númer tvö í þríleiknum. „Hún er aðeins myrkari en fyrsta bókin og grunnstefið þar er trúarbrögð.“ Sú bók mun einnig verða að kvikmynd. „Spennandi mynd,“ segja þau.

HÖFUNDARNIR

Leikstjórar og rithöfundar

Helgi Sverrisson lauk BA-gráðu í kvikmyndaleikstjórn frá San Francisco Art Institute í Bandaríkjunum árið 1988. Áður hafði Helgi lokið stýrimannsprófi frá Stýrimannaskóla Íslands.

Helgi hefur í rúma tvo áratugi unnið að kvikmyndagerð. Hann hefur skrifað fjölda handrita, leikstýrt leiknum myndum, framleitt jafnt kvikmyndir sem heimildamyndir. Fjöldi leikinna mynda, heimildaþátta og stuttmynda eftir Helga hefur verið sýndur í kvikmyndahúsum og sjónvarpi, hérlendis sem víða erlendis.

Eyrún Ósk Jónsdóttir lauk meistaragráðu í fjölmiðlun og þróunarfræðum frá Winchester University á Englandi árið 2007. Hún útskrifaðist með BA-gráðu í evrópskri leiklist og handritagerð frá Rose Bruford College á Englandi árið 2005.

Eyrún á að baki feril sem rithöfundur, leikari, leikstjóri og leiklistarkennari. Eyrún hefur skrifað fjölda leikrita sem hafa verið sett upp hér á landi og erlendis. Hún hefur sent frá sér tvær ljóðabækur.