Védís Kara Ólafsdóttir
Védís Kara Ólafsdóttir
Eftir Védísi Köru Ólafsdóttur: "„Hvernig ætlarðu að geta klárað skóla?“ - „Ertu ennþá með barnsföður þínum?“ - „Býrðu ein eða hjá foreldrum?“ - „Hvernig tóku foreldrar þínir í þetta?“"

Eins og Ísland er nú lítið land finnst mér til háborinnar skammar hvernig Íslendingar haga sér nú til dags. Sjálf er ég alíslensk og er 17 ára gömul frá því í ágúst. Í janúar á þessu ári kom ég mér í þá stöðu að verða móðir. Móðurhlutverkið er æðislegt og er ekki til nein tilfinning sem jafnast á við móðurtilfinninguna, sérstaklega þegar maður vaknar við eitt lítið kríli með bros á vör vera að kalla á sig orði sem maður bjóst aldrei við að heyra svona snemma.

Ekki alls fyrir löngu var ég á vappi niðri í bæ með dóttur mína í vagni. Við mæðgur ætluðum að setjast niður á kaffihúsi þarna rétt hjá, á leið okkar mætum við konu. Hún var á miðjum aldri og einsömul.

Konan gengur rakleitt upp að mér og spyr mig hvort þetta sé barnið mitt, sem ég svara játandi með brosi á vör. Eftir þau orð er eins og ský hafi dregið fyrir sólu, allt annar svipur kom á konuna og mér fannst eins og hún hefði hreint og beint orðið sármóðguð. Í stutta stund leit hún á mig og dóttur mína til skiptis og endaði svo hreinlega á því að gjörsamlega hrauna yfir mig. Þar á meðal lét hún þau orð flakka að hún skildi hvorki upp né niður í svona ungum stelpum að vera að eignast börn á þessum aldri. Þótt ég virðist alveg vera ungleg í andliti þá vissi þessi kona ekkert hvað ég væri gömul, svo ég vissi ekkert hvort hún hafði stimplað mig sem 15 ára stelpu eða ekki.

Svo kom að því að hún bar undir mig ættleiðingu, henni fyndist hræðilegar aðgerðir þessar fóstureyðingar og væri stolt af okkur fyrir það að eiga börnin en ekki eyða fóstrunum. En það væri að minnsta kosti lágmark að gefa þá barninu allavega tækifæri til að eiga gott líf og verða fósturbarn við kornabarnsaldur, það myndi hvort eð er aldrei vita hver í raun og veru væri mamma þess. Þetta tók rosalega á mig. Var hún í alvörunni að skamma mig fyrir að vilja ala barnið mitt upp?

Ég veit að ég er ung en ég hef alveg jafn miklar tilfinningar til barnsins míns eins og aðrar mæður og það þarf enginn lifandi maður að halda öðru fram. Jú, flestallir unglingar á mínum aldri hugsa aðallega um djamm og að standa sig í skólanum og eru kannski ekki alveg með hugann við barneignir strax. En þegar það gerist þá gerist það! Margir unglingar lesa þetta kannski og hugsa: „Ég myndi aldrei geta eignast barn svona ung/ungur.“ En fólk er bara misþroskað í þetta hlutverk en þetta kemur allt saman á endanum. Ég skal fúslega viðurkenna það að ég leit þetta mál alveg þessum augum. Mér datt ekki í hug að ég myndi geta þetta, en þegar ég fékk dóttur mína í hendurnar þegar hún var nýkomin í heiminn, sá augun hennar ljóma og heyrði hana gráta; það bræddi mig. Allt varð svart í kringum okkur og það voru bara ég og hún til á þessu augnabliki. Og ég hreinlega trúði þessu ekki, að þessi litla mannvera sem starði þarna á mig, liggjandi á maganum á mér væri 50% gen frá mér, 50% af blóði hennar væri blóðið úr mér.

Dóttir mín heldur alveg sinni þyngdarkúrvu en er aðeins undir hæðarkúrvunni, en það er ekki mér að kenna að barnið mitt sé minna en önnur börn á hennar aldri, það er bara eðli hennar að vera svolítið lítil. Ég geri dóttur minni allt, vil henni allt það besta og hrósa henni fyrir það sem hún gerir rétt. Ég á ennþá sónarmyndirnar hennar, ég tek ennþá myndir af henni í hverjum mánuði og lít á hana og hugsa hvað hún sé búin að breytast mikið og þroskast. Jafnvel í ungbarnaskoðun er mér hrósað fyrir dugnað og ekkert annað.

Einnig er það rosalegt hvernig ungum mæðrum er tekið nú til dags, eins og flest fólk þá kynnir maður sig kurteisilega með nafni við ný kynni. Þá er voðalega vel tekið við manni og oftast er maður spurður um aldur og skóla í framhaldi af því. En þegar fólk kemst að því að maður eigi barn, þá er það allt önnur saga. Þá er maður fúslega dæmdur fyrir það að vera annaðhvort fyrrverandi dópisti eða vandræðabarn sem gerir allt til þess að láta vorkenna sér. Og þá snýst allt umræðuefnið um barnið: „Hvernig ætlarðu að geta klárað skóla?“ - „Ertu ennþá með barnsföður þínum?“- „Býrðu ein eða hjá foreldrum?“ og „Hvernig tóku foreldrarnir í þetta?“ Þetta eru svona algengustu spurningarnar sem maður fær. En sú alversta og sú mest móðgandi er: „Er þetta ekkert erfitt?“ Auðvitað er þetta erfitt, hvort sem maður er 70 ára, 45 ára eða 17 ára þegar maður þarf að hugsa um barn. Ekki hund, ekki gullfisk heldur barn! Sjálfri finnst mér eins og fólk álíti þetta vera einhverja fötlun; maður hljóti bara að vera eitthvað skrítinn að eiga barn svona ungur. Ég á við, í dag á ég æðislegan kærasta, guðdómlega dóttur, fullt af vinum og yndislega fjölskyldu. Alveg eins og hver annar unglingur.

Við erum ungar, en við erum samt stoltar ungar mæður.

Höfundur er nemi.

Höf.: Védísi Köru Ólafsdóttur