Íslendingarnir fjórir í sænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik hafa gert það gott í haust og eru mjög atkvæðamiklir hjá sínum liðum.

Íslendingarnir fjórir í sænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik hafa gert það gott í haust og eru mjög atkvæðamiklir hjá sínum liðum. Frá því var greint á heimasíðu Sundsvall Dragons að leikmenn liðsins, Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson hafi nú verið valdir í lið vikunnar. Raunar er einn til viðbótar frá Sundsvall í liði vikunnar, Liam Rush, en liðið vann góðan útisigur á Boras.

Jakob leikmaður vikunnar

Jakob var ennfremur valinn leikmaður umferðarinnar fyrir frammistöðu sína gegn Boras. Farið er fögrum orðum um íslenska körfuknattleiksmenn á síðunni og kaupin á Hlyni eru sögð ein þau skynsamlegustu á leiktíðinni. Þar segir jafnframt að Hlynur auki möguleika Sundsvall á því að vinna titilinn.

Sundsvall er í fjórða sæti deildarinnar með tíu sigra í fjórtán leikjum. Uppsala með Helga Má Magnússon innanborðs er í 5. sæti og Logi Gunnarsson og samherjar hans í Solna eru í 6. sæti.

kris@mbl.is