Mannlíf Lífið gengur sinn vanagang í Seúl þrátt fyrir áform um skatt á erlenda fjármögnun banka.
Mannlíf Lífið gengur sinn vanagang í Seúl þrátt fyrir áform um skatt á erlenda fjármögnun banka. — Reuters
Stjórnvöld í Suður-Kóreu hyggjast leggja sérstakan skatt á erlenda fjármögnun þarlendra banka. Er þetta gert til þess að stemma stigu við skyndilegum fjármagnshreyfingum og áhrifum þeirra á gengi gjaldmiðils landsins.

Stjórnvöld í Suður-Kóreu hyggjast leggja sérstakan skatt á erlenda fjármögnun þarlendra banka. Er þetta gert til þess að stemma stigu við skyndilegum fjármagnshreyfingum og áhrifum þeirra á gengi gjaldmiðils landsins. Samkvæmt yfirlýsingum frá stjórnvöldum verður sett 20 punkta álag á erlenda skammtímafjármögnun banka. Álagningin mun svo renna í sjóð sem verður nýttur til þess að útvega bankakerfinu fjármagn á tímum lausafjárþurrðar. Skatturinn mun eingöngu leggjast á markaðsfjármögnun og mun ekki taka til fjármögnunar í formi innlána. Suður-Kórea er eitt fjölmargra útflutningshagkerfa í Asíu sem hafa verið að takmarka frjálst flæði fjármagns að undanförnu. Vegna hins lága vaxtastigs sem er á Vesturlöndum hefur miklu fjármagni verið beint til þessara hagkerfa í leit að hærri ávöxtun og það hefur svo sett þrýsting á gengi gjaldmiðils viðkomandi landa.

ornarnar@mbl.is