[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samkvæmt almanakinu verður almyrkvi á tungli í fyrramálið, 21. desember. Á morgun eru jafnframt vetrarsólstöður og stysti dagur ársins, upp frá því fer daginn að lengja. Ef veðurskilyrði verða hagstæð ætti tunglmyrkvinn að sjást hér á landi.

Samkvæmt almanakinu verður almyrkvi á tungli í fyrramálið, 21. desember. Á morgun eru jafnframt vetrarsólstöður og stysti dagur ársins, upp frá því fer daginn að lengja. Ef veðurskilyrði verða hagstæð ætti tunglmyrkvinn að sjást hér á landi.

Í Almanaki Háskóla Íslands segir að myrkvinn, þegar tungl snertir alskuggann, muni hefjast kl. 06.32 að morgni. Þá er tungl allhátt í vestri frá Reykjavík séð og verður almyrkvað frá kl. 07.40 til 08.54. Um kl. 10 verður tunglið laust við alskuggann í birtingu í Reykjavík, þá lágt í norðvestri.

„Þennan desembermorgun mun því rautt og jólalegt tungl svífa eins og risavasin náttúruleg jólakúla á himnafestingunni og boða rísandi sól,“ segir á Stjörnufræðivefnum, stjornuskodun.is, um tunglmyrkvann á morgun.

Þar segir að tunglmyrkvar geti aðeins orðið þegar sólin, jörðin og tunglið liggja hér um bil í beinni línu. Þeir verði því aðeins þegar tungl er fullt og fer inn í skugga jarðar.

„Þrátt fyrir þetta verða tunglmyrkvar þó ekki mánaðarlega því brautarplan tunglsins og brautarplan jarðar eru ósamsíða. Tunglbrautin hallast um 5 gráður frá braut jarðar og vegna hallans fellur skuggi jarðar yfirleitt undir eða yfir tunglið,“ segir ennfremur á vefnum.

Síðast sást almyrkvi á tungli hér á landi að nóttu til 21. febrúar 2008 en næst mun hann sjást frá Íslandi 10. desember 2011, að vísu um miðjan dag. bjb@mbl.is

HVER ER VEÐURSPÁ MORGUNDAGSINS?

Kjörin skilyrði sunnanlands

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að líkast til verði kjörin skilyrði til að virða fyrir sér tunglmyrkvann á vesturhimni í fyrramálið. Spáð er norðan- og norðaustanátt með frosti um land allt. Sunnan og vestan til verður léttskýjað eða heiðríkt.

Einar segir að meira verði um ský á himni norðan til, en líklega þó ekki alskýjað. Spáð er éljagangi norðaustanlands og þar verður einna ólíklegast að sjáist til tunglsins, að sögn Einars.

Það eru því góðar líkur á að Íslendingar sjái þetta fyrirbæri.