[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arngrímur apaskott og hrafninn Kristín Arngrímsdóttir Salka **** Hér segir frá apanum honum Arngrími sem einhverjir ættu að þekkja úr bókinni Arngrímur apaskott og fiðlan . Nú eru Arngrímur, amma Sólrún og Sólrún að njóta sumarblíðunnar úti í garði.
Arngrímur apaskott og hrafninn

Kristín Arngrímsdóttir

Salka

****-

Hér segir frá apanum honum Arngrími sem einhverjir ættu að þekkja úr bókinni Arngrímur apaskott og fiðlan . Nú eru Arngrímur, amma Sólrún og Sólrún að njóta sumarblíðunnar úti í garði. Þá kemur hrekkjóttur hrafn og fer að stríða ömmu, tætir upp blómin og stelur af henni eyrnalokk. Amma verður bálvond og fer að gráta. Arngrímur ákveður að gleðja ömmu og Sólrúnu með því að sýna þeim alla eftirlætisstaðina sína. Hrafninn fylgir þeim eftir og langar svolítið til að verða hluti af hópnum. Hann iðrast gjörða sinna og skilar ömmu eyrnalokknum og bætist í vinahópinn.

Þetta er skemmtileg og skondin bók sem allir ungir krakkar ættu að hafa gaman af; óþægur hrafn, ráðagóður api, grátandi amma og glöð stelpa eru góður hópur sem fær þau örugglega til að lifa sig inn í söguna. Textinn er stuttur og vandaður. Myndskreytingin litrík og lifandi, mjög skýr og barnvæn ef svo mætti að orði komast. Þetta er önnur bók Kristínar um Arngrím apaskott og vini hans og hafa þær báðar eitthvað yndislegt við sig sem gerir þær að framúrskarandi lesefni fyrir börn.

Skýjahnoðrar

Huginn Þór Grétarsson

Myndir: Cassandra Canady

Óðinsauga

**½--

Skýjahnoðrar eru litlir loðnir hnoðrar sem búa á himnum, þeir færa krökkum góða drauma á næturnar, m.a. stráknum Emil. Þegar stór verksmiðja rís í þorpinu hans Emils verður til úr mengunarskýi svartur lítill hnoðri. Hann er dapur og færir krökkunum dimma drauma. Skýjahnoðranir taka málin í sínar hendur, íbúar þorpsins mótmæla, verksmiðjunni er lokað og alla fer að dreyma vel. Verksmiðjan er opnuð aftur en nýtir þá vistvæna orku og himinn skýjahnoðranna er hreinn.

Skýjahnoðrar sem færa drauma er afskaplega sniðug hugmynd, þeir eru sætir og segja góðar sögur og væri gaman að heyra meira af ferðalagi þeirra í framtíðinni.

Uppbygging sögunnar er hefðbundin og boðskapurinn líka, veit samt ekki hvort hann á erindi til aldurshópsins sem bókin er fyrir, leikskólakrakka. Ég hefði viljað sjá minni boðskap og fræðast meira um skýjahnoðrana. Vatnslitamyndirnar sem skreyta bókina eru fallegar, í mildum litum og krúttlegar.

Þetta er hin besta barnabók.

Loðmar

Auður Ösp Guðmundsdóttir og

Embla Vigfúsdóttir

Salka

*****

Loðmar er flokkuð sem barnabók en er ekkert fyrir börn frekar en fullorðna, hún er listaverk fyrir alla.

Í henni segir frá Loðmari sem býr á opnu eitt í bókinni, hann fer yfir á opnu tvö með lesandanum og þá byrjar ævintýrið. Á ferðalagi sínu hittir hann bókbúana Flindil, Gnótt, Lúpu, Gímaldið og Knuðlján sem hafa öll sínu hlutverki að gegna og Loðmar verður margs vísari um lífið í bókinni.

Eftir söguna kemur Bókbúatal þar sem höfundar segja aðeins frá persónum bókarinnar og þar á eftir eru Óhefðbundnar orðskýringar þar sem orð og máltæki sem koma fyrir í sögunni eru útskýrð. Sagan er nefnilega sögð með orðum sem eru ekki mikið notuð í dag, orðum sem kannski flestir fullorðnir þekkja en börn og unglingar skilja ekki endilega. Tilgangur höfundanna með bókinni er að vekja athygli á fjölbreytileika tungumálsins og tekst þeim vel upp með það á áhugaverðan hátt.

Sagan er mjög skemmtilega skrifuð og það er augljóst að höfundarnir hafa haft gaman af því að leika sér með orðin því sagan er lifandi og fangar lesandann strax með sér í þetta spennandi ferðalag um bókina með Loðmari. Teikningarnar eru einfaldar en svo heillandi að maður getur ekki annað en flissað yfir því hvað hver persóna á vel við hlutverk sitt. Teikningarnar lýsa sögunni vel, t.d. er Gímaldið slefandi óargadýr og Lúpa mikil mús.

Loðmar er fyrsta bók höfunda og það er áþreifanlegt við lesturinn hvað þær hafa lagt mikið í hana af vinnu og lífsgleði, ég hafði mikla ánægju af lestrinum. Loðmar er listaverk sem ég mun hafa yndi af að fletta aftur og aftur.

Rikka og töfrahringurinn

á Indlandi

Hendrikka Waage

Myndir: Inga María Brynjarsdóttir

Salka

*----

Í fyrra kom út bókin um Rikku og töfrahringinn á Íslandi, nú er Rikka farin til Indlands til að hitta vin sinn Rahul. Þau ferðast leiftursnöggt á milli þekktra staða á Indlandi með aðstoð töfrahringsins sem virðist vera heldur óþolinmóður.

Fyrsta bókin um Rikku naut velgengni og þessi lyktar svolítið af því að nú eigi að dæla út bókum um Rikku á ferðalagi um heiminn, þessi er ekki eins vel unnin og sú fyrri, hvorki í texta né mynd.

Fyrst skal nefna teikningarnar sem eru mjög einhæfar. Rikka er bara með einn svip, alltaf brosandi eins og reyndar flestir í bókinni. Meira að segja Rahul brosir í fátækrahverfi Mumbai þar sem stendur að hann sé þungur á svip þegar hann segir Rikku frá fátæktinni. Myndirnar eru mjög stífar og ósannfærandi og þær hleypa litlu lífi í hinn stirðbusalega texta. Textinn er nánast eins á þeim sextán opnum sem bókin er, hann gengur út á það að Rahul vinur Rikku segir henni fróðleik um staðina sem þau koma á og hún spyr. Söguþráðurinn er fyrir vikið enginn. Komið hefði betur út að velja færri staði og segja aðeins meira um hvern.

Í þessa bók hefði mátt leggja meiri vinnu, í hana vantar dýpt, innileika og áhuga á viðfangsefninu. Það er fátt hrífandi við ferðalag Rikku til Indlands.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Yfirlit yfir nýútkomnar barnabækur, íslenskar

og þýddar

Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Yfirlit yfir nýútkomnar barnabækur, íslenskar og þýddar