Aron Kristjánsson og lærisveinar hans í Hannover-Burgdorf unnu á laugardag langþráðan sigur í þýsku 1. deildinni í handknattleik þegar þeir lögðu Lübbecke, 29:26, á heimavelli.

Aron Kristjánsson og lærisveinar hans í Hannover-Burgdorf unnu á laugardag langþráðan sigur í þýsku 1. deildinni í handknattleik þegar þeir lögðu Lübbecke, 29:26, á heimavelli. Þar með náði Burgdorf að mjaka sér upp úr næstneðsta sæti deildarinnar upp í sætið fyrir ofan með 7 stig að loknum 16 leikjum.

Burgdorf var tveimur mörkum undir í hálfleik, 14:12, en náði að jafna metin fljótlega í síðari hálfleik og komast yfir. Fyrir leikinn var því velt upp í fjölmiðlum í Hannover að farið væri að hitna undir Aroni þjálfara. Hafi verið sannleikskorn í þeim vangaveltum má telja sennilegt að sæti hans hafi kólnað örlítið við þennan sigur sem er sá fyrsti hjá liðinu í háa herrans tíð.

Þórir Ólafsson skoraði ekki fyrir Lübbecke að þessu sinni en hann var veikur um miðja vikuna og spilaði þá ekki með liðinu í bikarkeppninni. Þórir var í leikmannahópi liðsins í leiknum en kom lítið við sögu, að því er virtist.

Lübbecke er í 11. sæti með 12 stig.

Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði fimm mörk fyrir Burgdorf og var markahæstur íslensku leikmannanna þriggja hjá liðinu. Vignir Svavarsson skoraði þrjú mörk og Hannes Jón Jónsson fyrirliði skoraði tvö mörk.

Einar Hólmgeirsson skoraði fimm mörk þegar Ahlen-Hamm og Melsungen skildu jöfn, 33:33, á heimavelli Ahlen-Hamm þar sem gestirnir jöfnuðu metin 17 sekúndum fyrir leiklok eftir að hafa verið marki yfir í hálfleik, 17:16. Melsungen er næstneðst í deildinni. Ahlen-Hamm er í 15. sæti með 8 stig eftir að hafa fengið sjö stig úr síðustu fimm leikjum eftir að Einar kom inn í liðið á nýjan leik eftir erfið meiðsli.

RN Löwen komst upp í þriðja sæti deildarinnar þegar liðið lagði Friesenheim, 30:26, á útivelli. Löwen var sjö mörkum yfir í hálfleik, 17:10. Róbert Gunnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Löwen og Guðjón Valur Sigurðsson og Ólafur Stefánsson tvö mörk hvor.

iben@mbl.is