Írland Seðlabanki Evrópu hefur af því áhyggjur að ný löggjöf Íra muni hafa áhrif á veðstöðu gagnvart írskum bönkum vegna veðlánaviðskipta.
Írland Seðlabanki Evrópu hefur af því áhyggjur að ný löggjöf Íra muni hafa áhrif á veðstöðu gagnvart írskum bönkum vegna veðlánaviðskipta. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Þórður Gunnarsson thg@mbl.

Fréttaskýring

Þórður Gunnarsson

thg@mbl.is

Björgunaraðgerðir Evrópusambandsins (ESB) og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) til handa írska bankakerfinu gætu haft áhrif til hins verra á eignir sem írskir bankar hafa lagt að veði í endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Evrópu. Þetta kemur fram í álitsgerð seðlabankans vegna löggjafar sem samin var og samþykkt í flýti á Írlandi í tengslum við björgunaraðgerðirnar. Löggjöfin sem um ræðir veitir írska fjármálaráðuneytinu margvíslegar og auknar heimildir til að grípa inn í rekstur banka. Sumar þeirra heimilda eru í anda þeirra sem leiddar voru í lög á Íslandi með setningu neyðarlaganna í október 2008.

Á vef Financial Times eru leiddar líkur að því að þetta mat seðlabankans sýni að þar á bæ telji menn mikla áhættu fólgna í því að veita írska bankakerfinu enn aukna fyrirgreiðslu. Útistandandi veðlánaviðskipti írskra banka við Seðlabanka Evrópu nema í heild 136 milljörðum evra, eða sem nemur rúmlega 21.000 milljörðum íslenskra króna. Um er að ræða um fjórðung allra útistandandi veðlána á vegum seðlabankans, en til viðbótar við þá upphæð hefur Seðlabanki Írlands veitt bönkum þar í landi um 45 milljarða evra neyðarlán. Auk þess að hafa veitt írskum bönkum mikla lausafjárfyrirgreiðslu, hefur Seðlabanki Evrópu keypt mikið af skuldabréfum evruríkja á markaði til að halda fjármagnskostnaði þeirra niðri. Alls hefur seðlabankinn keypt ríkisskuldabréf evruríkja fyrir 72 milljarða evra, en talið er að stór hluti þess sé írsk ríkisskuldabréf, en ekki hefur fengist uppgefin hjá peningamálayfirvöldum í Evrópu sundurliðun á því, frá hvaða ríkjum skuldabréf hafa helst verið keypt.

Telja fullveldinu afsalað

Eins og fram hefur komið hefur írska ríkisstjórnin samþykkt 85 milljarða evra neyðaraðstoð frá ESB og AGS til að halda bankakerfi landsins lifandi. Írska ríkið mun í kjölfarið herða verulega að landsmönnum með skattahækkunum og niðurskurði opinberra útgjalda. Mjög deildar meiningar eru meðal írsku þjóðarinnar um hvort rétt hafi verið að þiggja aðstoð AGS og ESB. Í könnun sem birt var sl. laugardag kom fram að 51% Íra styður björgunaraðgerðirnar, en 37% sögðust mótfallin aðgerðunum. Athygli vekur að um 56% aðspurðra í könnuninni sögðu Írland hafa afsalað sér fullveldi sínu með því að undirgangast áætlun ESB og AGS. Tæp 70% sögðust telja að niðurskurðaráætlanir í ríkisrekstri væru of harkalegar.

Írland
» Írskir bankar hafa sótt alls 136 milljarða evra til Seðlabanka Evrópu í endurhverfum viðskiptum. Um er að ræða um fjórðung allra slíkra útistandandi viðskipta á vegum seðlabankans.
» Um helmingur írsku þjóðarinnar er hlynntur því að þiggja neyðaraðstoðina frá ESB og AGS.