VIÐTAL Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Ég er vitanlega mjög ánægður með árangur Hrafnhildar og þær miklu famfarir sem hún tók á heimsmeistaramótinu þar sem hún æfir dagsdaglega undir minni stjórn. En það má heldur ekki gleyma Ragnheiði og Jakobi.

VIÐTAL

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Ég er vitanlega mjög ánægður með árangur Hrafnhildar og þær miklu famfarir sem hún tók á heimsmeistaramótinu þar sem hún æfir dagsdaglega undir minni stjórn. En það má heldur ekki gleyma Ragnheiði og Jakobi. Þau stóðu sig einnig vel á heimsmeistaramótinu og meðal annars setti Ragnheiður Íslandsmet,“ sagði Klaus Jürgen Ohk, sundþjálfari, sem stýrði íslenska hópnum sem tók þátt í heimsmeistaramótinu sem lauk í Dubai í gær.

Klaus er yfirþjálfari hjá Sundfélagi Hafnarfjarðar og er þar með þjálfari Hrafnhildar sem tók miklum framförum á mótinu og bætti m.a. þrjú Íslandsmet og var þegar upp var staðið í hópi sextán bestu sundmanna í þremur keppnisgreinum.

„Það gekk allt upp hjá Hrafnhildi á þessu móti og alls ekki hægt að fara fram á meira.

Jakob og Ragnhildur stóðu sig vel. Hún setti Íslandsmet og náði að bæta sinn fyrri árangur á þessu keppnistímabili í öðrum greinum. Jakob hefur verið í fremstu röð í heiminum í ellefu ár og það er ekki lítið afrek. Til þess þarf mikla seiglu og dugnað,“ sagði Klaus og ítrekaði að árangur íslensku sundmannanna allra hefði verið afar góður. „Þeir eru í hópi 30 bestu í öllum greinum sem þeir tóku þátt í. Það er ekki lítið afrek þegar litið er á hversu stórt þetta mót er.“

Klaus segir að framfarir Hrafnhildar á mótinu hafi verið meiri en hann hafi reiknað með. „Það kom okkur þægilega á óvart þegar hún komst í undanúrslit í 100 metra bringusundi. Þar steig hún skrefi lengra en ég átti von á,“ sagði Klaus Jürgen Ohk. 3