Öðruvísi áramót Í áramótaferð Útivistar inn í Bása á Goðalandi er hefð fyrir blysför á gamlárskvöld. Þá myndast oft skemmtileg stemning þegar blysin lýsa upp kletta og gil. Svo er haldið til kvöldvöku inni í skála.
Öðruvísi áramót Í áramótaferð Útivistar inn í Bása á Goðalandi er hefð fyrir blysför á gamlárskvöld. Þá myndast oft skemmtileg stemning þegar blysin lýsa upp kletta og gil. Svo er haldið til kvöldvöku inni í skála. — Ljósmynd/Anna Soffía Óskarsdóttir
Önundur Páll Ragnarsson onundur@mbl.is Hálendi Íslands og óbyggðir eru ekki bara sumarland, sem einungis má heimsækja í júlí og ágúst. Á marga staði er hægt að fara allan ársins hring og kjósa sumir jafnvel að verja áramótunum fjarri byggðum.

Önundur Páll Ragnarsson

onundur@mbl.is

Hálendi Íslands og óbyggðir eru ekki bara sumarland, sem einungis má heimsækja í júlí og ágúst. Á marga staði er hægt að fara allan ársins hring og kjósa sumir jafnvel að verja áramótunum fjarri byggðum.

„Þú sérð í það minnsta flugeldinn þinn mjög vel, þegar þú skýtur honum upp,“ segir Skúli H. Skúlason, framkvæmdastjóri Útivistar, þegar hann svarar því hvernig það sé að vera fjarri skarkala borgar og bæja um áramót. Löng hefð er fyrir áramótaferð Útivistar í Bása á Goðalandi og verður engin undantekning gerð þar á í ár. Nú þegar hafa yfir tuttugu manns skráð sig í ferðina að sögn Skúla og segir hann því að aðsóknin sé ágæt í ár.

Sumir fara aftur og aftur

Alls taka skálarnir í Básum mest um 80 manns, en Skúli segir ekki æskilegt að fara með meira en sextíu manns þangað á þessum árstíma, svo vel sé rúmt um fólk. Enn er því hægt að bæta við í ferðina.

Hann segir að ferðin sé vinsæl hjá ákveðnum kjarna í Útivist og sumir mæti jafnvel ár eftir ár. En á hverju ári bætast við ný andlit sem vilja upplifa óvenjuleg áramót til tilbreytingar.

Dagskráin er skemmtileg á hverju ári og er meðal annars farið í blysför um Bása, gengið um gil og skorninga og kveikt á blysum. Á gamlárskvöld er brenna og kvöldvaka auk þess sem farið er í göngu- og skíðaferðir eftir því sem færið leyfir. Þegar vel viðrar er náttúrufegurðin svo auðvitað óviðjafnanleg og ekki skemmir fyrir ef norðurljós leika um himin, ómengaðan af ljósmagni þéttbýlisins.

Áramótaferð FÍ féll niður

Ferðafélag Íslands ráðgerði leiðangur inn í Landmannalaugar yfir áramótin, þar sem fólk gat hvort heldur sem er komið á eigin jeppa eða borgað fyrir far. Sú ferð féll því miður niður vegna dræmrar þátttöku, en eflaust spilar þar inn í veðurfarið að undanförnu og hversu mjög snjó hefur tekið upp á því svæði. Hjá FÍ er engu að síður hægt að borga fyrir afnot af skálum ef fólk vill vera í þeim á eigin vegum. Um tuttugu manns verða í skálanum í Landmannalaugum yfir áramótin, á eigin vegum.

FERÐAFÉLAGIÐ MEÐ STÓRA FERÐ Á ÞRETTÁNDANUM

Þrettándaferð í Þórsmörkina

Ferðafélag Íslands verður með stóra ferð í Langadal í Þórsmörk á þrettándanum. Nánast fullbókað er í ferðina en nokkur sæti enn laus, að sögn Páls Guðmundssonar framkvæmdastjóra. Hátt í sextíu manns ætla að skella sér.

Í þrettándaferðinni eru farnar gönguferðir í Snorraríki og sönghelli, kveiktur varðeldur, og dansað í kringum hann og jólalögin sungin. Á miðnætti er svo boðið upp á stjörnuskoðun með leiðsögn fararstjóra, ef skýjafarið leyfir.

Löng hefð er fyrir þessari þrettándaferð og nýtur hún alltaf mikilla vinsælda, ekki síst hjá fjölskyldufólki. Þeir sem ekki komast út úr bænum um sjálf áramótin geta því engu að síður komist í hátíðlega stemningu í óbyggðum á þrettándanum.