Varnir Með frumvarpi um breytingar á náttúruverndarlögum er leitast við að tryggja líffræðilegan fjölbreytileika og verjast ágangi nýrra tegunda.
Varnir Með frumvarpi um breytingar á náttúruverndarlögum er leitast við að tryggja líffræðilegan fjölbreytileika og verjast ágangi nýrra tegunda. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Einar Örn Gíslason einarorn@mbl.is Drög að frumvarpi til laga um breytingu á náttúruverndarlögum hafa vakið upp hörð viðbrögð skógræktarmanna.

Fréttaskýring

Einar Örn Gíslason

einarorn@mbl.is

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á náttúruverndarlögum hafa vakið upp hörð viðbrögð skógræktarmanna. Með frumvarpinu er ætlunin meðal annars að draga úr neikvæðum áhrifum ágengra „lifandi framandi lífvera“ hér á landi, sem ógnað geta líffræðilegri fjölbreytni og valdið verulegu fjárhagslegu tjóni. Jafnframt er markmiðið að sporna við akstri utan vega og að vernda tilteknar jarðmyndanir og vistkerfi. Ísland hefur skuldbundið sig á alþjóðavettvangi til þess að vernda upprunalegt lífríki landsins, en ágengar framandi tegundir eru taldar ein helsta ástæða hnignunar líffræðilegrar fjölbreytni í heiminum, að því er segir í athugasemdum við frumvarpið. Til þess að fyrrgreind markmið náist verða settar hömlur við því hvaða tegundir lífvera má flytja til landsins, og hverjar má flytja milli landsvæða.

Miðað við 62 ára gamalt rit

Með hugtakinu framandi lífvera er átt við dýr, sveppi, örverur og plöntur, sem „ekki koma náttúrulega fyrir í lífríki landsins.“ Hvað plöntur varðar er horft til þriðju útgáfu Flóru Íslands, sem kom út árið 1948. Á meðal þeirra plantna sem ekki koma þar fyrir eru margar trjátegundir sem hvað mest eru notaðar í skógrækt hér á landi. „Þetta eru allar trjátegundir sem við notum í skógrækt nema þær innlendu, reyniviður, birki og blæösp,“ segir Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknarstöðvar skógræktar og sviðsstjóri rannsóknasviðs Skógræktar ríkisins. Hann segir þær tegundir sem mikilvægastar séu í skógrækt í dag varla hafa verið gróðursettar hér á landi fyrr en upp úr síðari heimsstyrjöld eða um svipað leyti og Flóra Íslands var tekin saman. Þar sem miðað hafi verið við það að tegund væri farin að fjölga sér náttúrulega til að teljast ílend, væri þessar tegundir ekki að finna í ritinu.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra sagði nýverið í viðtali við Fréttablaðið, að ekki ætti að lesa of mikið í ákvæði frumvarpsins sem snúa að flutningi plantna á svæði á hverjum þær koma ekki náttúrulega fyrir. Aðalsteinn segir frumvarpstillögurnar ákaflega skýrar. „Það er allt bannað nema það sem sérstaklega er leyft með undanþágum,“ segir hann. Í frumvarpstillögunum er vísað til skrár, sem útbúin verður, yfir þær tegundir sem undanþegnar eru ákvæðum laganna. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu verða um 50 tegundir á þeirri skrá.

Ekkert samráð við smíðina

Ætla má að erfitt geti reynst að taka afstöðu til mögulegra afleiðinga lagabreytinganna, til dæmis á skógrækt, nema skráin yfir undanþegnar tegundir sé höfð til hliðsjónar. Aðalsteinn segist ekki hafa séð hana og ekkert samráð hafa verið haft við Skógrækt ríkisins við frumvarpsvinnuna. „Ég hef spurst fyrir annars staðar, og það kannast enginn við að samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila, hvorki í skógrækt né í öðrum greinum, landgræðslu eða landbúnaði, áður en tillögurnar voru settar fram,“ segir hann. Frestur til að skila athugasemdum við frumvarpið til umhverfisráðuneytisins var upphaflega til 7. janúar, en hefur verið framlengdur og er nú til 21. janúar næstkomandi.

FRAMANDI TEGUNDIR

Allar tegundir sekar

„Það eru allar tegundir, að því er virðist, sekar uns sakleysi þeirra er sannað,“ segir Aðalsteinn, spurður að því hvort litið sé á allar tegundir sem ekki eru skráðar í Flóru Íslands eða á undanþáguskrá. „Þetta eru rússalerki, sitkagreni, stafafura, alaskaösp, hvítgreni, blágreni, og svona tuttugu aðrar tegundir. Sumar eru svona minniháttar tegundir, svo ég tali nú ekki um þær tegundir sem gætu átt eftir að vera mikilvægar í skógrækt okkar með hlýnandi loftslagi, sem við vitum sjálfsagt minna um. Listinn er í sjálfu sér endalaus yfir tegundir sem eru ekki einu sinni komnar á skrá hjá okkur í dag, en gætu orðið mikilvægar þegar fram líða stundir.“