Góður Alex Song fagnar marki sínu en hann opnaði markareikninginn fyrir Arsenal gegn Chelsea í gær. Song átti góðan leik eins og allt lið Arsenal.
Góður Alex Song fagnar marki sínu en hann opnaði markareikninginn fyrir Arsenal gegn Chelsea í gær. Song átti góðan leik eins og allt lið Arsenal. — Reuters
Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Arsenal-menn náðu að hrista Chelsea-grýluna af sér í gærkvöld þegar liðið vann verðskuldaðan 3:1 sigur á meisturunum á Emirates Stadium.

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Arsenal-menn náðu að hrista Chelsea-grýluna af sér í gærkvöld þegar liðið vann verðskuldaðan 3:1 sigur á meisturunum á Emirates Stadium. Alex Song, Cesc Fabregas og Theo Walcott komu „Skyttunum“ í 3:0 en serbneski varnarmaðurinn Branislav Ivanovic náði að laga stöðuna fyrir þá bláklæddu, sem eru í frjálsu falli þessa dagana. Þetta var fyrsti sigur Arsenal á grönnum sínum frá því í nóvember 2008 og með honum komust strákarnir hans Arsene Wenger upp í annað sæti deildarinnar. Liðið hefur 35 stig eins og Manchester City en Manchester United trónir á toppi deildarinnar með 37 stig. United á leik til góða á Arsenal og tvo á City.

Chelsea hefur aðeins náð að innbyrða sex stig úr síðustu átta leikjum sínum og sæti Ítalans Carlo Ancelotti í starfi knattspyrnustjóra er örugglega farið að hitna. Þetta er versti kafli Chelsea í 12 ár en liðið hefur ekki unnið leik síðan Ray Wilkins var sparkað úr starfi aðstoðarknattspyrnustjóra.

Höfum trú á þessu

„Við höfðum trú á því sem við vorum að gera og það skipti sköpum í leiknum,“ sagði Cesc Fabregas fyrirliði Arsenal við Sky Sport eftir leikinn. „Munurinn á milli góðs lið og liðs sem er frábært er afar lítill. Við gerðum það sem frábær lið gera. Við vorum frábærir. Deildin er svo jöfn og hver sem er getur unnið hana. Við munum reyna okkar besta til að gera það,“ sagði Fabregas eftir leikinn.

Líkt og Fabregas var kantmaðurinn eldsnöggi, Theo Walcott, í sigurvímu eftir sigurinn á Chelsea en hann skoraði eitt mark og lagði annað upp.

„Við hugsuðum ekkert um það sem er liðið. Því verður ekki breytt. Við einbeittum okkur að því að pressa leikmenn Chelsea stíft. Við gáfum þeim engin svæði og spiluðum á köflum frábæran fótbolta. Síðustu leikir okkar við Chelsea hafa verið mikil vonbrigði en við vildum svo sannarlega breyta því fyrir okkur og ekki síður stuðningsmennina,“ sagði Walcott.

Munurinn lá í gæðunum

„Munurinn lá í gæðunum. Þau voru miklu meiri hjá Arsenal heldur en okkur. Arsenal-liðið spilaði einfaldlega betur en við. Mitt lið spilaði ekki vel og við eigum erfitt um þessar mundir. Nú verðum við bara að taka okkur saman í andlitinu fyrir leikinn á móti Bolton. Við þurfum að vakna til lífsins því við erum hreinlega sofandi,“ sagði Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Chelsea, eftir leikinn.