Yndislegt Stewart er stórkostlegur í hlutverki George Bailey í kvikmyndinni jólalegu, It's a Wonderful Life.
Yndislegt Stewart er stórkostlegur í hlutverki George Bailey í kvikmyndinni jólalegu, It's a Wonderful Life.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þarf ekki að spyrja að því að bærinn hefði orðið eitt allsherjar lastabæli og eiginkona Baileys óhamingjusamur bókasafnsvörður.

Af jólamyndum

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Á dögunum birti kvikmyndavefurinn Empire lista yfir bestu jólakvikmyndir allra tíma, að mati lesenda vefjarins, og hreppti ofbeldismyndin Die Hard fyrsta sætið, en sú mynd var frumsýnd á jólum 1988 og fer hasarinn fram í jólaboði í háhýsi mikils fyrirtækis. Lengra nær jólaboðskapurinn ekki í þeirri mynd, ef frá er talinn hamingjuendir þar sem allir kyssast og verða vinir eftir að hryðjuverkamönnum hefur verið komið fyrir kattarnef.

Á listanum var hins vegar einnig öllu jólalegri kvikmynd sem virðist alltaf komast á lista yfir tíu bestu jólamyndir allra tíma, a.m.k. þegar Bandaríkjamenn fá að ráða, It's a Wonderful Life með hinum dásamlega leikara James Stewart í aðalhlutverki, frá árinu 1946. Hvað er það eiginlega við þessa kvikmynd sem gerir hana að slíku jólaeftirlæti? Jú, ég sá hana í fyrsta sinn um daginn og skil nú vel af hverju hún á fast sæti á jólalistum. Boðskapurinn er nefnilega sá að lífið sé dásamlegt og að öll él birti upp um síðir, hversu svört sem þau kunna að vera og að öll séum við nú mikilvæg hér á jörð. Þetta er auðvitað voða sætt og fallegt en lífið er nú öllu flóknara í raunveruleikanum, ekki eru allir svo heppnir að höndla hamingjuna á lífsleiðinni, sumir deyja úr hungri, aðrir úr kulda o.s.frv. Litla stúlkan með eldspýturnar veit allt um það.

It's a Wonderful Life segir af ævi George nokkrum Bailey, allt frá uppvaxtarárum fram að miðri ævi. Bailey á sér þann æskudraum að nema lönd og lenda í miklum ævintýrum en þarf að gefa drauma sína upp á bátinn til að bjarga smábæ sem hann býr í, Bedford Falls, frá því að lenda í klóm auðjöfursins Potters. Bailey tekur að sér að reka lánastofnun föður síns og veitir mörgum þurfandi bæjarbúanum fjárhagsaðstoð og gerir fólki kleift að koma sér þaki yfir höfuðið. Bailey er dáður mjög í bænum fyrir örlæti sitt og væntumþykju í garð bæjarbúa, kvænist æskuástinni sinni og eignast með henni fjögur falleg börn. En babb kemur í bátinn þegar frændi hans og samstarfsmaður týnir mikilli fúlgu fjár og stefnir allt í að stofnunin fari á hausinn og Bailey með. Og ekki nóg með það því lögreglan telur Bailey hafa stolið peningunum, hann er eftirlýstur og lítur út fyrir að hans bíði fangelsisvist. Úrkula vonar tekur hann reiði sína út á fjölskyldunni, drekkur sig blindfullan og hyggst fyrirfara sér. Þá kemur verndarengill til bjargar (bókstaflega) og sýnir honum hvernig lífið hefði verið hefði hann aldrei fæðst. Þarf ekki að spyrja að því að bærinn hefði orðið eitt allsherjar lastabæli og eiginkona Baileys óhamingjusamur bókasafnsvörður. Og nokkrir bæjarbúanna sem hann hjálpaði orðnir rónar. En allt endar auðvitað vel að hætti Hollywood, bæjarbúar koma Bailey og fjölskyldu hans til bjargar með fullar hendur fjár, Bailey verður fyrir vikið ríkasti maður bæjarins og sleppur úr snörunni. Já, það er ekkert verið að skafa utan af því í draumaverksmiðjunni, Bailey er sem frelsarinn sjálfur endurborinn. Stewart fer algjörlega á kostum í hlutverki þessa mikla mannvinar og eftirminnilegast er atriðið þar sem hann tekur reiði sína út á fjölskyldunni, frávita af ótta um að missa allar eigur sínar, frelsið og fjölskylduna með.

Þrátt fyrir alla þessa yfirkeyrðu Hollywood-hamingju undir lokin er myndin falleg og yljar manni um hjartarætur. Ágætis áminning til okkar í kreppukvíðanum um það sem mestu máli skiptir, fólkið sem maður elskar og elskar mann vonandi á móti. Og ekki síst að peningar eru ekki upphaf og endir alls.