Yfirlýsingar nokkurra helstu seðlabanka hafa reynst haldlausar
Seðlabankar sem búa ekki í gerviveröld hafta og gengisfölsunar eru óöruggir með sig um þessar mundir. Þegar litið er á tilkynningar þeirra og spár síðustu 18 mánuðina hefur verðhjöðnun verið vandamálið sem við væri að fást. Væntingarnar utan seðlabankaveggjanna eru aðrar. Verðbólgan er komin á kreik. Hún getur orðið snúið viðfangsefni áður en við er litið. Þessi er raunin í Bretlandi. Verið róleg, segir Englandsbanki. Verðbólguhættan verður úr sögunni þegar árið 2012 gengur í garð. Vandinn er sá að hinar vitlausu spár um nýliðna fortíð verða til þess að lítið traust ríkir á tali og töfluspeki um næstu framtíð. Seðlabanki Evrópu er í miklum vandræðum. Hann talaði upp gríska efnahaginn eins lengi og hann gat. Reyndar hætti hann því ekki fyrr en ekki heyrðist í honum vegna hávaða á markaðnum. Þá var reynt að skuldsetja Grikki út úr vandanum. Sama atburðarás varð á Írlandi. Allt í lagi í Portúgal, sagði ESB fyrir fáeinum vikum. Þar eru matsfyrirtæki að tilkynna versnandi horfur ótt og títt. Og nú hefur skuldabréfaálag rokið upp úr öllu valdi. Markaðurinn er hættur að kæfa traustsyfirlýsingar ESB á titrandi ríkjum með hávaðanum einum. Vantraustið á ríkjunum sem til umræðu hafa verið hefur færst yfir á bankann. Þá gæti fjandinn verið laus.