Jólasveinapósthús Jólasveinarnir í Dimmuborgum hafa fengið aðstöðu hjá Mývatnsstofu til að taka við kortum og svara þeim sem hægt er. Langflest kortin koma frá börnum á Bretlandseyjum sem telja að sveinki búi á Íslandi.
Jólasveinapósthús Jólasveinarnir í Dimmuborgum hafa fengið aðstöðu hjá Mývatnsstofu til að taka við kortum og svara þeim sem hægt er. Langflest kortin koma frá börnum á Bretlandseyjum sem telja að sveinki búi á Íslandi. — Ljósmynd/Þorgeir Gunnarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
baksvið Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Íslandspóstur reiknar með að hátt á þriðju milljón jólakorta hafi farið á milli landsmanna um þessi jól.

baksvið

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Íslandspóstur reiknar með að hátt á þriðju milljón jólakorta hafi farið á milli landsmanna um þessi jól. Nákvæmari tala liggur ekki fyrir þar sem kortin blandast öðrum bréfapósti og enn er verið að dreifa kortum sem bárust seint. Að sögn Ágústu Hrundar Steinarsdóttur, upplýsingafulltrúa Póstsins, er þó gert ráð fyrir um 5% færri kortum en í fyrra.

Kortin eru ekki aðeins send milli ættingja og vina heldur eru einnig fjölmörg kort stíluð á íslenska jólasveininn. Íslandspóstur áframsendir þau bréf til Mývatnsstofu sem fær sérstaka aðstoð jólasveinanna í Dimmuborgum til að taka á móti þeim bréfum og svara ef þau eru merkt sendanda. Að sögn Jónu Matthíasdóttur, aðstoðarkonu jólasveinanna, voru vel á annað hundrað jólakort komin í hús fyrir jól og samkvæmt reynslu fyrri ára má búast við kortum fram yfir áramót. Jóna segir þetta svipaðan fjölda og í fyrra en flest hafi bréf til jólasveinanna verið hátt í 400 fyrir fáum árum. Langflest kortin koma frá útlöndum, aðallega frá Bretlandi en einnig frá löndum eins og Þýskalandi, Frakklandi og Rússlandi. Lítið er um kort frá hinum Norðurlöndunum.

Stúfur og Kertasníkir bestir

Misvel gengur hjá jólasveinunum að svara öllum þessum bréfum. Ekki eru þeir allir læsir og þeir geta ekki vænst neinnar aðstoðar frá Grýlu eða Leppalúða. Jóna segir Kertasníki og Stúf vera duglegasta við að lesa bréfin og svara þeim en jólasveinarnir hafa fengið sérstaka aðstöðu hjá Mývatnsstofu við þessa iðju.

„Stundum fylgir með glaðningur í kortunum eins og sælgæti, teikningar og snuð sem börnin hafa verið að skila til jólasveinsins. Jólasveinunum finnst mjög gaman að stússa í þessu og hér er jafnan mikið fjör og mikið gaman yfir jólin. Þeim finnst líka mjög gaman að fá svar til baka frá þeim sem þeir svara,“ segir Jóna.

Íslensku jólasveinarnir eru í harðri samkeppni við bræður sína á Norðurlöndunum um hver séu hin einu sönnu heimkynni jólasveinsins. Í því skyni hafa sveinkarnir í Dimmuborgum farið í heimsókn til Rovaniemi í Lapplandi til að kynna sér aðstæður.

GEKK AÐ MESTU VEL AÐ KOMA JÓLAPÓSTINUM TIL SKILA

Finna þarf Siggu og Stínu

Ágústa Hrund Steinarsdóttir, upplýsingafulltrúi Póstsins, segir að vel hafi gengið að koma jólapóstinum til skila. Kort sem póstlögð voru 23. og 24. desember fóru í dreifingu í gær og haldið áfram með þau í dag. Óveðrið í Evrópu hafði þau áhrif að póstur til landsins tafðist. Mikið af pósti frá útlöndum fór því í dreifingu í gær og Ágústa segir þá vinnu halda áfram næstu daga. „Við eigum líka von á miklu í viðbót en þetta er allt póstur sem hefur verið póstlagður síðustu dagana fyrir jól,“ segir Ágústa. Hún segir alltaf eitthvað um jólakort með röngu heimilisfangi sem Íslandspóstur leggi mikinn metnað í að koma til skila á réttan stað. „Svo er alltaf töluvert af jólakortum sem eru merkt til dæmis Siggi og Stína og fjölskylda. Þá þarf að vinna aðeins í því að finna hvar Siggi og Stína búa,“ segir Ágústa Hrund.