Guðný Guðmundsdóttir
Guðný Guðmundsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fiðlukonsertar eftir Elgar, Herbert. H. Ágústsson, Britten og Pál P. Pálsson. Guðný Guðmundsdóttir fiðla og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hljómsveitarstjórn: James Loughran, Richard Bernas, Sidney Harth og Petri Sakari.

Fiðlukonsertar eftir Elgar, Herbert. H. Ágústsson, Britten og Pál P. Pálsson. Guðný Guðmundsdóttir fiðla og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hljómsveitarstjórn: James Loughran, Richard Bernas, Sidney Harth og Petri Sakari. Upptökumenn í Háskólabíói á vegum hljóðdeildar RÚV: Þórir Steingrímsson (E 10.1. 1992, HHÁ 28.10. 1994), Hreinn Valdimarsson (B 6.12. 1996) og Sverrir Gíslason (PPP 12.6. 2001). Tónmeistari: Bjarni Rúnar Bjarnason. Bæklingstexti: Árni Heimir Ingólfsson. Lengd (2 diskar): 69:06 / 66:17. Útgefandi: Sinfóníuhljómsveit Íslands og Smekkleysa SM ehf. ISO1, 2010.

Fæst orð bera minnsta ábyrgð!“ fullyrðir rammíslenzkur málsháttur og vekur, á tímum háværra krafna um aukið gegnsæi, ójákvæmilega forvitni óinnvígðra eftir að vita nánar um hverju er sleppt – og hvers vegna .

Eða hvað ber t.d. að lesa úr númerinu ISO 1 á kili hinnar nýútkomnu tveggja diska samloku Guðnýjar Guðmundsdóttur? Að ástkær hljómsveit allra landsmanna sé, eftir nokkra vel heppnaða hljómdiska fyrir Chandos og Naxos, farin af stað með plötuútgáfu á eigin vegum?

Um það sagði ekkert í diskbæklingnum, og skal með öllu ósagt hvort háð sé ótta við að skuldbinda sig fyrir fram – ef ekkert skyldi nú verða úr framhaldi. Né heldur að diskarnir væru gefnir út af Sinfóníuhljómsveit Íslands & Smekkleysu SM ehf. með styrk frá Hljómdiskasjóði F.Í.T. – sem reyndar kom fram við eftirleit á netvef SÍ. En þótt hvorttveggja megi kalla vandskiljanlegan ljóð á að öðru leyti greinargóðum bæklingi, eigum við vonandi eftir að fá staðfest áform um útgáfuröð á fremstu hljóðfæraleikurum þessa flaggskips íslenzkrar listmúsíkur, því hugmyndin er gráupplögð og á allt gott skilið.

Því síður er ástæða til grafgatna að hugsanleg frumraun „ISO-útgáfunnar“ fer, óhætt að segja, myndarlega af stað og jafnt einleikara, stjórnenda, hljómsveit sem hljóðriturum til sóma. Svo maður reifi fyrst hið síðasttalda er jafnvægið milli hljóðfæradeilda innbyrðis – og einleikara og hljómsveitar – allt annað en tónleikagestir Háskólabíós eiga að venjast. Safarík ómgjörðin er þar á ofan beinlínis villandi til betri vegar, hvað a.m.k. einn erlendur plötudómari flaskaði illþyrmilega á þegar hann hrósaði óviðjafnanlegri akústík kvikmyndahússins er öll mun að þakka upptökumönnum og góðum græjum. Til gamans má nefna nýlega en ekki alveg tilefnislausa ábendingu ónefnds gagnrýnanda til tónleikagesta um að koma með heyrnartól og ferðaútvarp – til að heyra almennilega í sveitinni úr beinni útsendingu RÚV(..!). Eða þangað til draumalandsheyrð Hörpu gerir slíka aukaþörf að engu.

Viðfangsefni diskanna eru m.a. forvitnileg fyrir að teljast varla meðal kunnustu stríðsfáka fiðlukonsertanna, heldur fara þar tiltölulega sjaldheyrðari verk frá 20. öld. Að vísu halda konsertar Elgars (1909) og Brittens (1939) núorðið tryggum sessi í vestrænum tónleikasölum, en yngstu verkin, Formgerð II (1979) eftir Herbert H. og Fiðlukonsert Páls Pampichlers (1998) hafa hins vegar ekki heyrzt enn utan landsteina. Þó verkin spanni aðeins um 90 ár, er heildarbreidd þeirra feikivíð – frá tregafullri síðrómantík Elgars um frumlega nýklassík Brittens og espressíf tjábrigði Herberts undir viðbótaráhrifum seinni Vínarskólans í frjálstónala litaorgíu Páls.

Hljómsveitin leikur af vakurri innlifun, og Guðný er, kannski burtséð frá blániðurlaginu á Britten, upp á sitt allra bezta. Satt bezt að segja missti ég á köflum nærri nef og munn, enda hélt ég ekki að hún ætti þetta mikið til. Vönduð fram í fingurgóma, en líka ástríðufull; ýmist seiðandi söngræn eða neistandi fjörug, með ósvikið næmi fyrir músíkölskum aðalatriðum á hverjum stað.

Hér fer sannarlega glæsilegur lokapunktur á farsælum 36 ára konsertmeistaraferli. Og upplifun hlustandans er mögnuð eftir því.

Ríkarður Ö. Pálsson

Höf.: Ríkarður Ö. Pálsson