Í úrslit Ásta Birna Gunnarsdóttir skoraði fjögur af mörkum Fram gegn Fylki þegar liðin áttust við í íþróttahúsinu við Strandgötu í gær.
Í úrslit Ásta Birna Gunnarsdóttir skoraði fjögur af mörkum Fram gegn Fylki þegar liðin áttust við í íþróttahúsinu við Strandgötu í gær. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ívar Benediktsson iben@mbl.

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Ég er fyrst og fremst ánægður með að hafa unnið leikinn því lengi vel benti nú ekki margt til þess að við myndum vinna,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram, eftir að lið hans vann fjögurra marka sigur, 29:25, á Fylki í undanúrslitaleik deildarbikar kvenna í handknattleik í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði síðdegis í gær.

„Við vorum lengi vel í mestu vandræðum og vorum undir, ekki síst vegna þess að Guðrún Ósk Maríasdóttir varði vel í marki Fylkis,“ sagði Einar sem sér fram á spennandi úrslitaleik við Íslandsmeistara Vals í kvöld.

Fram jafnaði metin þegar tíu mínútur voru til leiksloka, 23:23. Þá var sem þrek leikmanna Fylkis væri að mestu uppurið. Framarar gengu á lagið og leikmenn Fylkis virtust ekki megna að koma til baka og jafna metin.

Framarar munu þar með fá tækifæri til þess að verja deildarbikarinn sem liðið vann í fyrra gegn Íslandsmeisturum Vals í dag. „Fram og Valur eru með tvö bestu liðin og ég vona bara að fólk mæti á leikinn og sjái þessi tvö lið mætast. Það verður örugglega skemmtilegur leikur,“ sagði Einar.

Engu var líkara fram að fyrri hálfleik en Framliðið væri bara alls ekki með í leiknum. Leikmenn Fylkis skoruðu þegar þeim sýndist. Sóknarleikur Fram var liðinu erfiður. Án Stellu Sigurðardóttur og Hildar Þorgeirsdóttur var sóknarleikurinn fábreyttur auk þess sem Guðrún Ósk Maríasdóttir, markvörður Fylkis, var vel með á nótunum og varði vel. Baráttugleði Fylkisliðsins sló Famliðið út af laginu, eða eitthvað var það því það náði sér aldrei á strik.

Ekki tókst Einari Jónssyni að vekja leikmenn sína í hálfleik því Fylkismenn byrjuðu af krafti og náðu fljótlega fimm marka forskoti, 20:15. Um miðjan síðari hálfleik var enn fjögurra til fimm marka munur á liðunum. Hver mistökin ráku önnur á báða bóga og lítt gekk við markaskorun. En smátt og smátt dró úr styrk Fylkis og Framarar gengu á lagið og hrósuðu fjögurra marka sigri.

Fram – Fylkir 29:25

Íþróttahúsið við Strandgötu, deildabikar kvenna, undanúrslit, mánudag 27. desember 2010.

Gangur leiksins : 1:0, 1:1, 1:3, 2:6, 7:8, 10:10, 10:12, 12:13 , 12:14, 14:17, 15:20, 19:23, 24:23, 28:24, 29:25 .

Mörk Fram : Karen Knútsdóttir 6, Birna Berg Haraldsdóttir 5, Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir 5, Marthe Sördal 5, Ásta Birna Gunnarsdóttir 4, Sigurbjörg Jóhannsdóttir 3/3, María Karlsdóttir 1.

Varin skot : Íris Björk Símonardóttir 10 (þar af 3 til mótherja). Hildur Gunnarsdóttir 2 (þar af 1 til mótherja).

Utan vallar : 4 mínútur.

Mörk Fylkis : Jóhann Kolbrún Tryggvadóttir 6, Sunna María Einarsdóttir 6/3, Nataly Sæunn Valencia 6, Sunna Jónsdóttir 4, Tinna Soffía Traustadóttir 3.

Varin skot : Guðrún Óska Maríasdóttir 16 (þar af 4 til mótherja).

Utan vallar : 6 mínútur.

Dómarar : Jón Karl Björnsson og Þorleifur Árni Björnsson, þokkalegir, hefði mátt vera strangari á tíðum.

Áhorfendur : 600.