Hjálpar fólki Ingibjörg K. Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur.
Hjálpar fólki Ingibjörg K. Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Senn líður að áramótum og þá strengja margir heit sem yfirleitt tengjast bættum lifnaðarháttum. Eitt algengasta áramótaheitið er vafalaust að hætta að reykja en það getur reynst fólki miserfitt. Ingibjörg K.

Senn líður að áramótum og þá strengja margir heit sem yfirleitt tengjast bættum lifnaðarháttum. Eitt algengasta áramótaheitið er vafalaust að hætta að reykja en það getur reynst fólki miserfitt. Ingibjörg K. Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur aðstoðar lungnasjúklinga og aðra við að hætta að reykja en talið er að hægt væri að koma í veg fyrir eitt af hverjum þremur krabbameinstilfellum ef reykingum yrði útrýmt.

Ylfa Kristín K. Árnadóttir

ylfa@mbl.is

Ingibjörg starfar á A3, göngudeild lungna, á Landspítalanum og sinnir þar reykleysismeðferð fyrir inniliggjandi sjúklinga og sjúklinga á göngudeild en margir nýta tækifærið til að hætta að reykja við það að leggjast inn á sjúkrahús. Að auki vinnur hún hjá Krabbameinsfélagi Reykjavíkur þar sem hún er með einstaklingsráðgjöf og námskeið.

Reykleysismeðferðin fer þannig fram að í upphafi fer Ingibjörg yfir reykingarsögu einstaklingsins. Ef fram kemur að mikið er reykt í hans nánasta umhverfi, t.d. á heimili hans er þeim fjölskyldumeðlimum eða vinum einnig boðin reykleysismeðferð.

Mikilvægt að læra af reynslunni

„Það sem felst í að taka reykingasögu er m.a. að skoða nikótínfíkn og birtingarmynd hennar hjá einstaklingnum, hversu mikið hann reykir, hvort hann hafi reynt að hætta áður, hvernig hann fór að því og af hverju hann hafi byrjað aftur o.s.frv.,“ segir Ingibjörg.

Mikilvægt sé að læra af reynslunni. „Ef viðkomandi er tilbúinn að gera tilraun til að hætta að reykja í nánustu framtíð er farið að leggja drög að aðgerðaáætlun og hægt er að fara margar leiðir. Ég ráðlegg flestum að nota lyf en einstaklingurinn sjálfur ákveður að lokum hvaða leið hann fer og ég styð hann í því. Þegar lyf eru ráðlögð kemur oft fyrri reynsla einstaklingsins að gagni. Ef eitthvað hefur reynst vel getur verið gott að nýta það aftur og eins ef viðkomandi hefur slæma reynslu af einhverju er betra að sleppa því. Við förum yfir mögulegar hindranir eða aðstæður sem kalla á smók. Ég reyni að hjálpa viðkomandi að sjá fyrir sér hvað geti orðið erfitt og hvernig hægt verði að bregðast við í staðinn fyrir að reykja.“

Hafa nóg fyrir stafni

Mælt er með að fólk sæki sér stuðning og láti sem flesta vita að stefnt sé að því að hætta að reykja. Ákveða þarf daginn til að hætta, t.d. þarf að finna út hvort það er betra að hætta í miðri viku, um helgi eða í fríi. „Ég mæli með að hafa nóg fyrir stafni fyrst eftir að hætt er þó án þess að hafa of mikið álag ef möguleiki er á. Það er mikilvægt að átta sig á að löngunin í smók stendur ekki mjög lengi yfir í einu. En hún er hins vegar alltaf að koma upp fyrstu dagana og fólki finnst þetta oft eins og ein stór löngun. Því oftar sem einstaklingur gengur í gegnum dag og aðstæður reyklaus verður það auðveldara. Lyf hjálpa en það þarf líka að finna aðrar leiðir til að dreifa athyglinni, s.s. hafa nóg fyrir stafni, fá sér vatnsglas, hreyfa sig, hafa eitthvað sterkt í munninum o.s.frv. Hver þarf að finna einhver ráð sem henta honum.“

Áfengi ein algengasta fallhættan

Áfengi, álag og andleg vanlíðan eru algengustu ástæðurnar fyrir falli. „Ég ráðlegg því fólki að hætta að drekka í einhvern tíma eftir að það hættir að reykja. Hver og einn þarf að finna hversu lengi. En flestir reykja mikið þegar þeir fá sér í glas þannig að löngunin getur orðið sterk auk þess sem auðveldara er að telja sig á að fá sér eina sígarettu.“

Að sögn Ingibjargar þarf fólk að vera staðráðið í að hætta að reykja. „Ef fólk er ekki ákveðið í að hætta fellur þetta í raun um sjálft sig. Mikilvægt er að hver og einn hafi sína ástæðu fyrir að hætta að reykja og minna sig á það þegar löngunin er sterk. En það getur verið vegna heilsunnar, peninganna, lyktarinnar eða til að geta eytt meiri tíma með barnabörnunum. Svo hvet ég fólk til að verðlauna sig. Þetta er eitt það besta og mikilvægasta sem fólk getur gert fyrir sjálft sig.“

Tíminn vinnur með fólki

Ingibjörg segir flesta sem koma í reykleysismeðferð hafa reynt að hætta að reykja áður. „Ég minni fólk á að það að hætta að reykja er ferli og flestir þurfa að gera nokkrar tilraunir áður en það tekst. Í stað þess að fólk brjóti sig niður fyrir að hafa ekki getað hætt áður reyni ég að hjálpa fólki að nota reynsluna á uppbyggilegan hátt og reyna að nýta hana næst þegar það hættir. Það eru mjög margir sem þora ekki að takast á við hætta að reykja því þeir eru hræddir við að falla og það er ekki gott.“

Eins og fram hefur komið ráðleggur Ingibjörg flestum að nota lyf en það bætir árangur um a.m.k. helming og það gerir ráðgjöf og stuðningur einnig. Besta meðferðin er því lyf við nikótínfíkn og langtímastuðningur. 70% þeirra sem hætta „á hnefanum“ eru fallnir eftir 2 daga, 80% eftir 2 vikur og eftir árið eru 5-7% reyklaus. Ef einstaklingur hefur verið reyklaus í ár eru 40% líkur á því að hann falli einhvern tímann á næstu 8 árum.

Skammast sín fyrir veikindin

Ingibjörg fylgir fólki eftir vikulega í 4-6 vikur og svo líður lengra á milli en alls stendur eftirfylgnin yfir í eitt ár. Suma þarf Ingibjörg að hitta oftar en aðra. „Það er miserfitt fyrir fólk að hætta að reykja. Þar skipta m.a. gen, þunglyndi, kvíði, félagslegar og efnahagslegar ástæður máli.“

Ingibjörg sinnir mikið reykleysismeðferð fyrir fólk með langvinna lungnateppu og í þeim tilfellum fyllist fólk oft skömm. „Langvinn lungnateppa er reykingatengdur sjúkdómur og margir skammast sín fyrir að reykja og að vera búnir að skaða sig. Það væri nánast hægt að útrýma langvinnri lungnateppu og lungnakrabbameini yrði reykingum útrýmt. 85-90% tilvika má rekja til reykinga eða óbeinna reykinga.“

Langvinn lungnateppa oft vangreind

Ingibjörg tekur þátt í stórri rannsókn þar sem verið er að skoða sérstaka nálgun í reykleysismeðferð ásamt fleiri þáttum sem tengjast langvinnri lungnateppu. „Langvinn lungnateppa er alvarlegur sjúkdómur,“ segir Ingibjörg. „Um 18% Íslendinga eru með lungnateppu á stigi 1 eða hærra. Besta meðferðin er að hætta að reykja. Skaðinn gengur ekki til baka en líðanin batnar og framgangur sjúkdómsins hægist verulega.“ Langvinn lungnateppa er oft vangreind og segir Ingibjörg marga ekki vita að þeir séu með sjúkdóminn og því geti þeir ekki byrjað að takast á við þær breytingar sem þarf að gera til að auka lífsgæðin. Mælt er með því að þeir sem eru 40 ára og eldri fari í öndunarmælingu. Það er einföld mæling sem er hægt að fara í á heilsugæslustöðvum og er mikilvæg til að greina sjúkdóminn.

Maður græðir alltaf á því að hætta

Ingibjörg segir fólk alltaf græða á því að hætta að reykja, sama hversu gamalt það sé orðið og hvort sem það sé komið með sjúkdóm eða ekki. „Það er alltaf ávinningur. Það er talað um að ef maður hættir að reykja fyrir þrítugt sé maður með sömu lífslíkur og þeir sem hafa ekki reykt. Þá er sagt að ef þú hefur verið reyklaus í 10 ár séu líkur á að fá hjartaáfall þær sömu og hjá þeim sem hafa ekki reykt.“

Ingibjörg bendir þeim sem vilja hætta að reykja á að hafa samband við Krabbameinsfélag Reykjavíkur þar sem hægt er að fá upplýsingar um reykleysisnámskeið og einstaklingsráðgjöf.

krabbameinsfelagid.is/reykleysi