Minnstu munaði að stjörnulið AG Köbenhavn tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu þegar það mætti Skjern í undanúrslitum dönsku bikarkeppninnar í handknattleik í NRGI-höllinni í Árósum í gærkvöld.

Minnstu munaði að stjörnulið AG Köbenhavn tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu þegar það mætti Skjern í undanúrslitum dönsku bikarkeppninnar í handknattleik í NRGI-höllinni í Árósum í gærkvöld. AG Köbenhavn tókst að knýja fram sigur, 27:26, eftir framlengdan leik en staðan eftir venjulegan leiktíma var 24:24. Skjern var 14:11 yfir eftir fyrri hálfleikinn og náði mest fimm marka forskoti í seinni hálfleik, 18:13. En hið stjörnuprýdda lið AG Köbenhvn neitaði að gefast upp og tókst að knýja fram framlengingu eftir mikinn darraðardans fyrir framan 2.700 áhorfendur. Undir lok framlengingarinnar kom svo reynsluboltinn Kaper Hvidt Kaupmannahafnarliðinu til bjargar þegar hann varði skot frá leikmanni Skjern og tryggði þar með liði sínu dramatískan sigur. Arnór Atlason skoraði 2 af mörkum AG Köbenhavn en Snorri Steinn Guðjónsson var ekki á meðal markaskorara. Danski landsliðsmaðurinn Mikkel Hansen var markahæstur með 8 mörk.

AG Köbenhavn mætir Århus Håndbold í úrslitaleik í kvöld en Árósarliðið hafði betur á móti Team Tvis Holstebro í hinum undanúrslitaleiknum, 30:23. gummih@mbl.is