Hjón á sjötugsaldri í Breiðholti klófestu þjóf í gær. Hjónin höfðu farið út í verslun en komu heim að manni sem lét greipar sópa.

Hjón á sjötugsaldri í Breiðholti klófestu þjóf í gær. Hjónin höfðu farið út í verslun en komu heim að manni sem lét greipar sópa. Konan kom þá í veg fyrir að þjófurinn kæmist út um dyr hússins en þegar þjófurinn ætlaði út um glugga tókst heimilisföðurnum að klemma hann fastan á útleið. Þar beið þjófurinn í mikilli klemmu þar til lögregla kom á vettvang og handtók hann. Lögreglan segir manninn vera góðkunningja sinn en hann var yfirheyrður í gærkvöld.

Þá rændu tveir menn Spar-verslun í Vesturbergi á tíunda tímanum í gærkvöld. Þeir komust undan með eitthvað af peningum en lögreglan handtók þá skömmu síðar. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir þá hafa komið við sögu lögreglu áður. Báðir voru færðir til yfirheyrslu í gærkvöld.