Ljóst er að bekkurinn verður þéttsetinn þegar Ólympíuleikarnir fara fram í London árið 2012 ef mið er tekið af eftirspurninni sem er eftir miðum á þennan stærsta viðburð íþróttaheimsins.

Ljóst er að bekkurinn verður þéttsetinn þegar Ólympíuleikarnir fara fram í London árið 2012 ef mið er tekið af eftirspurninni sem er eftir miðum á þennan stærsta viðburð íþróttaheimsins. Að sögn Paul Deighton, framkvæmdastjóra leikanna, hafa nú þegar 2 milljónir manna sótt um að fá miða og er búist við að sú tala hækki upp í 2,5 milljónir áður en miðar fara í sölu í mars.

Það er því ljóst að skipuleggjendur leikanna eiga fyrir höndum vandasamt verk við að ákveða hvernig best sé að selja þær 8,8 milljónir miða sem í boði eru á hina ýmsu viðburði á leikunum.

„Þessi fjöldi sem við erum að tala um, og tilhugsunin um það hvernig best sé að selja miðana út, er til að æra óstöðugan,“ sagði Deighton við fréttamenn.

Hvort sem þessi mikla eftirspurn hefur eitthvað um það að segja eða ekki þá hafa skipuleggjendur ákveðið að hækka lægsta verð á miða úr 15 pundum, en því verði hafði áður verið lofað, í 20. Þá mun kosta 725 pund, 130.000 krónur, að sjá úrslit 100 metra hlaupa. sindris@mbl.is