Búast má við aðgerðalitlu veðri um áramótin um allt land, að sögn Óla Þórs Árnasonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Búast má við aðgerðalitlu veðri um áramótin um allt land, að sögn Óla Þórs Árnasonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Líklega verður skýjað og nokkur rigning víðast hvar en þar sem hitastigið er lágt þarf lítið til að rigningin breytist í slydduél á gamlárskvöld.

„Þetta er mjög hæg sunnanátt og jafnvel suðaustanátt hér á suðvesturhorninu og líklega myndi úrkoman skila sér lítið inn á höfuðborgarsvæðið um kvöldið,“ sagði Óli Þór. Hann sagði líklegt að vindur myndi snúast úr suðvestan í hæga suðaustanátt með kvöldinu. „Þetta er mjög aðgerðalítið veður. Við getum búist við að víðast hvar á landinu verði hitastigið á landinu 0-5 stig en það er hætt við að verði fremur skýjað. Stóra spurningin er hvort það verður svo lágskýjað að menn sjái ekki allt sem verður skotið upp. En í heildina verður þetta ágætis veður.“

Hann sagði minnkandi lægð vera á Grænlandssundi en síðan kæmi önnur á miðvikudag og fimmtudag, leifarnar af henni myndu verða á höfuðborgarsvæðinu á gamlársdag.