Víkverji átti að öllu leyti góð jól í faðmi fjölskyldunnar, saddur og sæll með gjafir og gjörning í mat og drykk. Að vísu fækkaði ekki kílóunum en nægt lesefni er til staðar næstu vikurnar og engin hætta á að jólakötturinn knýi dyra.

Víkverji átti að öllu leyti góð jól í faðmi fjölskyldunnar, saddur og sæll með gjafir og gjörning í mat og drykk. Að vísu fækkaði ekki kílóunum en nægt lesefni er til staðar næstu vikurnar og engin hætta á að jólakötturinn knýi dyra. Fyrir utan snjóinn sem hvarf þá vantaði aðeins eitt upp á; að komast í messu og heyra jólaboðskapinn. Það tekst vonandi á næstu jólum.

Samkvæmt fregnum fjölmiðla að dæma var kirkjusókn með eindæmum góð um jólin. Þannig hefur það reyndar verið eins og langt aftur og Víkverji man. Víkverji rakst á ágætis samantekt eins netverja um helgina sem hafði gefið sér tíma til að kíkja í gagnasöfn fjölmiðlanna varðandi kirkjusókn um jólin. Þá komu í ljós sömu fréttirnar um hverja hátíð. Alltaf frábær kirkjusókn og mun betri en árið þar áður.

Víkverji vonar svo innilega að þetta sé hverju orði sannara en einhvern veginn grunar hann þó að þjónar guðs bæti nú stundum einhverjum hausum við í talningunni. Ef kirkjusóknin hefur aukist svona gríðarlega ættu að hafa borist fréttir á seinni árum um að fjöldi fólks hafi þurft frá yfirfullum kirkjum að hverfa um jólin. Einnig er ekki ólíklegt að góð kirkjusókn sé bundin við vinsælustu prestana og þá sem duglegastir eru að láta vita af sér. Hinir eru líklegri til að þegja þunnu hljóði um hálftómar kirkjur.

Til að fá þessi mál á hreint ætti að fara fram vísindaleg könnun á kirkjusókn um jólin til að taka af allan vafa. Fram kom á síðasta kirkjuþingi að landsmenn fara að jafnaði fjórum sinnum í kirkju á ári en 22% Íslendinga fara aldrei í kirkju. Ekki var tekið fram hve margir sóttu kirkjur um jólin og hvetur Víkverji til þess að slík könnun fari fram. Þannig gæti Biskupsstofa kallað eftir skýrslum frá hverjum presti og tölurnar síðan birtar opinberlega að hátíð lokinni.