Jónas Margeir Ingólfsson jonasmargeir@mbl.

Jónas Margeir Ingólfsson

jonasmargeir@mbl.is

Atli Gíslason, einn þeirra þriggja stjórnarþingmanna sem sátu hjá við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins, segir misfarið með ýmislegt í greinargerð Árna Þórs Sigurðssonar, starfandi þingflokksformanns Vinstri grænna. „Eins og t.d. að við höfum ekki gert fyrirvara. Ég gerði skýran fyrirvara við atkvæðagreiðslu við aðra umræðu frumvarpsins. Ég tíðka það nú ekki í pólitík, þó ég sé ósammála skoðunum manna eða hugsjónum sem þeir telja sig berjast fyrir, að kalla þá ódrengilega. Ég er bara ósammála en hann kallar okkar skoðanir ódrengilegar. Ég er svolítið hissa á því, mér finnst það ekki viðeigandi á milli einstaklinga sem greinir á.“ Atli kveður þingflokksfund VG hafa verið boðaðan 5. janúar. „Það þarf að ræða þessi mál, óhjákvæmilega, og það verður gert. Bæði af hálfu þingflokksformannsins og okkar.“

Atli kveður Árna þurfa að eiga þessa greinargerð við sjálfan sig. „Ég hefði ekki gert þetta. Ekki með þessum orðum. Mér finnst allt í lagi að hann orði sínar skoðanir og ágreining við okkur en það hefur alltaf valdið mér vonbrigðum ef ágreiningur er persónugerður eins og gert hefur verið í ríkum mæli gagnvart okkur þremenningunum. Það er ekki pólitík að mínu skapi. Þetta er skotgrafapólitík og hin gamla stjórnmálamenning sem vonandi er á förum.“