Tilþrif Baldvin Þorsteinsson er hér einbeittur á svip þegar hann er að koma boltanum í mark Framara í Strandgötunni í gær þar sem FH vann stórsigur.
Tilþrif Baldvin Þorsteinsson er hér einbeittur á svip þegar hann er að koma boltanum í mark Framara í Strandgötunni í gær þar sem FH vann stórsigur. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á vellinum Ívar Benediktsson iben@mbl.

Á vellinum

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Árum saman léku FH-ingar heimaleiki sína í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði og glæsileg saga handknattleiksliðs félagsins er að stórum hluta rituð með þeim afrekum og þeim hetjum sem FH-liðið tefldi fram í þessu skemmtilega íþróttahúsi árum saman. Engir hinna ungu leikmanna núverandi FH-liðs voru fæddir þegar FH-liðið lék heimaleiki sína í Strandgötunni og kappar eins og Ragnar Jónsson, Geir Hallsteinsson, Birgir Björnsson og Hjalti Einarsson voru fremstir meðal jafningja og skemmtu Hafnfirðingum í Strandgötunni og rökuðu inn sigrum og verðlaunum fyrir félag sitt.

Ungu mennirnir voru greinilega meðvitaðir um hina glæstu sögu sem samtvinnuð er á milli FH og Strandgötuhússins þegar þeir gengu til leiks gegn Fram í undanúrslitum deildabikarsins í handknattleik þar í gær. Þeir léku við hvern sinn fingur og gerðu út um leikinn á 40 mínútum. Þar fóru fremstir meðal jafningja Halldór Guðjónsson, Ólafur Guðmundsson og Daníel Andrésson markvörður.

Eftir að leikmenn Fram höfðu skorað tvö fyrstu mörkin í leiknum drógu þeir sig hægt og bítandi að landi og fengu hreinlega háðulega útreið, einkum í síðari hálfleik þegar munurinn á liðunum var ítrekað ellefu til tólf mörk.

FH lék frábæra vörn lengst af og Daníel átti stórleik í markinu í þær 45 mínútur sem hann lék í fjarveru Pálmars Péturssonar. Ólafur og Halldór röðuðu inn mörkum. Leikmenn Fram voru ekki nema svipur hjá sjón að þessu sinni. Að vísu vantaði Jóhann Gunnar Einarsson en fjarvera hans afsakar ekki slakan leik liðsins að þessu sinni.

Fram – FH 31:40

Íþróttahúsið við Strandgötu, deildabikar karla, undanúrslit, mánudag 27. desember 2010.

Gangur leiksins : 2:0, 2:4, 3:4, 6:9, 9:12, 11:15, 13:17 , 13:19, 16:26, 17:26, 19:30, 23:35, 28:37, 31:40 .

Mörk Fram : Andri Berg Haraldsson 8/1, Magnús Stefánsson 4, Haraldur Þorvarðarson 3, Jóhann Karl Reynisson 3, Einar Rafn Eiðsson 3, Hákon Stefánsson 2, Kristján Svan Kristjánsson 2, Halldór Jóhann Sigfússon 2, Grétar Már Garðarsson 1/1, Matthías Daðason 1, Elías Bóasson 1.

Varin skot : Magnús Erlendsson 7 (þaraf 1 til mótherja). Ástgeir Rúnar Sigmarsson 7 (þaraf 2 til mótherja).

Utan vallar : 4 mínútur.

Mörk FH : Halldór Guðjónsson 10, Ólafur Guðmundsson 8, Ásbjörn Friðriksson 6/2, Baldvin Þorsteinsson 5, Atli Rúnar Steinþórsson 4, Benedikt Kristinsson 3, Bjarki Jónsson 1, Þorkell Magnússon 1/1, Brynar Geirsson 1, Sigurgeir Árni Ægisson 1.

Varin skot : Daníel Andrésson 15 (þaraf 3 til mótherja). Sigurður Örn Arnarsson 4 (þaraf 1 til mótherja).

Utan vallar : 4 mínútur.

Dómarar : Gísli H. Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson.

Áhorfendur : 700.