[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslendingaliðið Sundsvall Dragons styrkti enn stöðu sína í sænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik í fyrrakvöld með öruggum sigri á Borås, 93:81.

Íslendingaliðið Sundsvall Dragons styrkti enn stöðu sína í sænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik í fyrrakvöld með öruggum sigri á Borås, 93:81. Hlynur Bæringsson skoraði 17 stig fyrir Sundsvall og tók 10 fráköst og Jakob Örn Sigurðarson skoraði 10 stig. Sundsvall er komið í annað sætið með 24 stig og á leik til góða á toppliðið, LF Basket, sem er með 26 stig.

H einer Brand , landsliðsþjálfari Þjóðverja í handknattleik, hefur valið 19 manna æfingahóp fyrir HM sem hefst í Svíþjóð 13. janúar. Þjóðverjar koma hingað til lands og mæta Íslandi 7. og 8. janúar. Í hópi Brands eru bæði Holger Glandorf frá Lemgo og Lars Kaufmann frá Göppingen, sem báðir eru að jafna sig eftir aðgerðir. Glandorf fór í liðþófaaðgerð á hné fyrr í þessum mánuði og Kaufmann hefur verið lengi frá vegna uppskurðar á öxl. Þjóðverjar eru með Íslandi í riðli í undankeppni Evrópumótsins og liðin mætast dagana 9. og 13. mars, fyrst í Laugardalshöllinni. Á HM í Svíþjóð eru Þjóðverjar í riðli með Frakklandi, Spáni, Túnis, Egyptaland og Bahrain, og verða síðan með Íslandi í milliriðli, svo framarlega sem báðar þjóðir komast uppúr riðlakeppninni.

Michael Knudsen , danski línumaðurinn sem leikur með þýska handknattleiksliðinu Flensburg, verður með Dönum í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins sem hefst í Svíþjóð um miðjan janúar. Knudsen hefur verið plagaður af meiðslum í um eitt ár en hann er allur að braggast og hefur Ulrik Wilbek landsliðsþjálfari Dana ákveðið að velja hann í HM hópinn.

Sænski handknattleiksmaðurinn Oscar Carlén hefur gert þriggja ára samning við Hamburg, toppliðið í Þýskalandi, um að leika með því frá og með næsta keppnistímabili. Carlén, sem er 22 ára gamall, hefur leikið með Flensburg undanfarin ár. Forráðamenn Hamburg staðfestu jafnframt í gær að þeir ættu í viðræðum við Per Carlén , föður Oscars og þjálfara Flensburg, um að taka við liði Hamburg næsta sumar þegar Martin Schwalb hættir með liðið.

B astian Schweinsteiger var í gær útnefndur knattspyrnumaður ársins í Þýskalandi af þýska tímaritinu Kicker. Schweinsteiger, sem nýlega framlengdi samning sinn við Bayern München til ársins 2016, átti afar góðu gengi að fagna með þýska landsliðinu sem varð í þriðja sæti á HM í Suður-Afríku. Hann hefur verið í herbúðum Bayern frá árinu 1998 og hefur frá þeim tíma fimm sinnum hampað meistaratitlinum.

Sænski landsliðsmarkvörðurinn Mattias Andersson , samherji Sverre Jakobssonar hjá þýska handknattleiksliðinu Grosswallstadt, gengur í raðir Flensburg á næstu leiktíð. Hann mun leysa Dan Beutler af hólmi en Beutler er á leið til Hamburg. Andersson hefur verið í herbúðum Grosswallstadt frá árinu 2008 en þar áður stóð hann á milli stanganna hjá Kiel og Barcelona.