Arnar Jónsson sem Lér „Hann sýnir vel bæði styrk og veikleika persónunnar og á magnaðan leik, sér í lagi undir lok leiksins.“
Arnar Jónsson sem Lér „Hann sýnir vel bæði styrk og veikleika persónunnar og á magnaðan leik, sér í lagi undir lok leiksins.“ — Ljósmynd/Eddi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikarar: Arnar Jónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Baldur Trausti Hreinsson, Eggert Þorleifsson, Hannes Óli Ágústsson, Hilmir Jensson, Margrét Vilhjálmsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Ólafur Darri Ólafsson, Ólafur Egill...

Leikarar: Arnar Jónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Baldur Trausti Hreinsson, Eggert Þorleifsson, Hannes Óli Ágústsson, Hilmir Jensson, Margrét Vilhjálmsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Ólafur Darri Ólafsson, Ólafur Egill Egilsson, Pálmi Gestsson, Stefán Hallur Stefánsson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir. Leikmynd: Börkur Jónsson. Búningar: Helga I. Stefánsdóttir. Tónlist: Hildur Ingveldardóttir Guðnadóttir. Hljóðmynd: B.J. Nilsen. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Dramatúrg: Matthew Whittet. Aðstoðarleikstjóri: Friðrik Friðriksson. Þýðing: Þórarinn Eldjárn. Leikstjórn: Benedict Andrews. Þjóðleikhúsið, sunnudaginn 26. desember 2010.

L ér konungur eftir William Shakespeare er svo sannarlega einn helsti harmleikur leikhúsbókmenntanna. Í verkinu fjallar höfundur um valdagræðgi, oflæti, svik og upplausn, en jafnframt um tryggð, kærleika og hreinleika sálar. Sagan segir frá Lé konungi sem ákveður að skipta konungsríki sínu á milli dætra sinna áður en hann fellur frá. Hlutur dætranna fer eftir því hversu mikla ást þær bera til föður síns. Tvær elstu dæturnar syngja honum fagurgala í eyra en sú yngsta, Kordelía, er sannsögul og hreinskilin og á ekki til orð til að lýsa ást sinni. Lér reiðist Kordelíu, telur hana skorta ást og afneitar henni en skiptir ríkinu milli hinna tveggja. Í kjölfarið fer af stað atburðarás svika, óheiðarleika, vitfirringar, grimmdar og dauða. Inn í frásögnina fléttast svo önnur saga um jarlinn af Gloster og syni hans.

Þetta verk Shakespeares er margslungið og margrætt. Það er mikill leikhússeiður sem fræðimenn hafa leitast við að túlka á ýmsa vegu. Slíkum túlkunum verða ekki gerð skil í þessum línum sem vert væri en minnt á að þetta magnaða verk hefur verið hinum virtustu leikurum og leikhúsmönnum heimsins stöðug ögrun allt til þessa dags. Lér konungur er harmleikur sem þó inniheldur margt af einkennum trúðleiksins og á köflum má sjá í verkinu einkenni úr leikhúsi fáránleikans. Lér er sýndur sem gamall, aumkunarverður vitfirringur sem verður hjákátlegur þegar hann er sviptur titli, krúnu og mannvirðingu. Í söguleikjum Shakespeares er viss hringrás. Aðalpersónan kemst til valda með svikráðum og klækjum en fellur svo í lokin og önnur tekur við á svipaðan hátt. Þannig endurtekur sagan sig. Það er alltaf einhver sem stendur eftir til að taka við ríkinu og markar nýtt upphaf. Í Lé konungi er því ekki svo farið. Þar deyja allir, engin von er eftir.

Lér konungur er erfitt verk og gerir ýtrustu kröfur til allra sem að því koma. Þarna er fín lína milli harmleiks og skrípaleiks. Takist ekki að feta hana kann verkið að missa flugið. Því einfaldara sem verkið er í uppsetningu, þeim mun skýrara verður það.

Í hlutverki Lés konungs er Arnar Jónsson. Arnar er leikari sem leggur mikið í undirbúning og rannsóknir á hlutverkum sínum og hefur slík vinna svo sannarlega skilað sér hér. Hann sýnir vel bæði styrk og veikleika persónunnar og á magnaðan leik, sér í lagi undir lok leiksins.

Margrét Vilhjálmsdóttir fer með hlutverk Góneríl, elstu dóttur kóngsins. Það er gaman að sjá Margréti aftur á sviði eftir nokkurt hlé. Hún hefur sterka sviðsframkomu og þokka. Vigdís Hrefna Pálsdóttir er í hlutverki Reganar, miðdóttur Lés. Hún fór ágætlega með hlutverk sitt, bæði látbragð og leik. Álfrún Örnólfsdóttir leikur Kordelíu, þá yngstu. Álfrún hefur hina barnslegu, einlægu nánd sem hæfir hlutverkinu. Allar fóru þær vel með hlutverk sín, sem reyndar eru misjafnlega rismikil. Eiginmenn Góneríl og Reganar eru leiknir af Ólafi Darra Ólafssyni og Baldri Trausta Hreinssyni. Það var gaman að sjá þá báða í töluvert öðruvísi hlutverkum en vanalega. Ólafur Darri var mjög góður sem hinn kokkálaði hertogi af Alban og Baldur var sterkur sem hinn illi hertogi af Kornvall. Þess má geta að framsögn þeirra beggja var til fyrirmyndar.

Jarlinn af Glostri er í höndum Eggerts Þorleifssonar. Hann náði vel að halda hlutverki sínu innan þeirra marka sem áður er getið um harmleik og skrípaleik. Játmund, óskilgetinn son jarlsins, leikur Stefán Hallur Stefánsson. Enn og aftur er Stefán í hlutverki illmennis. Ekki er því að neita að hann nær góðum tökum á slíkum hlutverkum. Atli Rafn Sigurðarson var hreinlega frábær í túlkun sinni á Játgeiri, eldri syni jarlsins. Líkams- og raddbeiting hans var með ágætum.

Fífl konungsins var í höndum Ólafíu Hrannar Jónsdóttur. Hún átti marga góða spretti en stundum talaði hún aðeins of hratt svo að sum gullkornin misstu marks. Þetta á reyndar við um flesta leikarana. Þeir hefðu mátt dvelja betur í textanum. Líklega lagast þetta þegar líður á sýningartímann.

Ólafur Egill Egilsson var í hlutverki Ósvalds, þjóns Gónerílar. Hlutverkið er fremur átakalítið en Ólafur náði að vinna vel úr því með skemmtilegum leik.

Önnur hlutverk voru í höndum hinna nýútskrifuðu leikara Hannesar Óla Ágústssonar og Hilmars Jenssonar og stóðu þeir sig með prýði.

Leikmynd Barkar Jónssonar var einföld. Í upphafi verksins er sviðið þakið blöðrum í íslensku fánalitunum og eru þær smám saman sprengdar svo ekkert verður eftir. Þetta má túlka sem ríkið er molnar smám saman og eftir stendur bert sviðið. Þetta er reyndar í samræmi við eitt þema verkins sem fjallar um nekt í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Kraftmikil rigning á sviðinu var mikilfengleg en olli því að leikarar þurftu að reyna ansi mikið á röddina til að heyrðist til þeirra.

Tónlist Hildar Ingveldardóttur Guðnadóttur var magnþrungin svo sem hæfði verkinu.

Þýðing Þórarins Eldjárns er í stuttu máli frábær. Textinn er færður á nútímamál en er þó ekki of talmálslegur. Hann er alveg laus við uppskafningshátt og tilgerð.

Leikstjóri sýningarinnar er ástralski leikstjórinn Benedict Andrews. Andrews er þekktur í heimalandi sínu, sem og utan þess, fyrir uppsetningar á verkum Shakespeares. Hann hlaut m.a. ein virtustu leikhúsverðlaun Ástralíu fyrir uppsetningu byggða á verkum Shakespeares um Rósastríðin. Sýn Andrews á Lé konungi er í þeim anda að einfaldleiki henti verkinu best. Þetta tekst ekki alveg. Sýningin er aðeins „óhrein“ eða óskýr en í seinni hlutanum fellur sýningin í það mót sem hentar henni best, verður einföld og stílhrein.

Svo lifandi eru verk Shakespeares enn í dag að samtíminn breytir í sífellu skilningi okkar á þeim. Ætla má að Lér konungur höfði til okkar Íslendinga um þessar mundir þegar við sitjum uppi með hrunið mikla líkt og hinn vitskerti konungur.

Lér konungur í Þjóðleikhúsinu er stórsýning, að mörgu leyti vel heppnuð en þó eru nokkrir hnökrar á henni sem ég hef minnst á hér að framan.

Þetta er sýning sem unnendur góðrar leiklistar ættu ekki að láta fram hjá sér fara.

Ingibjörg Þórisdóttir