Geysihátt verð hefur fengist á fiskmörkuðum síðustu daga, meðalverð á kíló af óslægðum þorski var liðlega 430 krónur í gær sem er hæsta meðalverð undanfarin þrjú ár að minnsta kosti. Ragnar H.

Geysihátt verð hefur fengist á fiskmörkuðum síðustu daga, meðalverð á kíló af óslægðum þorski var liðlega 430 krónur í gær sem er hæsta meðalverð undanfarin þrjú ár að minnsta kosti. Ragnar H. Kristjánsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðs Suðurnesja í Sandgerði, sagði dragnótabátinn Örn KE 14 hafa farið út í gærmorgun, fengið rúm fjögur tonn og verðið verið 522 krónur á kíló.

„Framboðið af fiski var lítið, ekki nema um 68 tonn af öllum tegundum á landinu,“ sagði Ragnar. „Þannig verður þetta stundum á þessum tíma. Það voru bara tveir dragnótabátar á sjó hérna suðurfrá, veðrið var svo leiðinlegt. Oft eru þessir bátar stutt undan landi ef eitthvað er að veðri. Oft smalar ákveðin átt þorskinum hálfpartinn upp að landi og það borgaði sig hjá þeim að fara út í morgun.“

Hann sagði fiskbúð á höfuðborgarsvæðinu hafa keypt nokkuð af fiskinum en annars hefði megnið af honum farið í flug á markað erlendis. Fyrir jól hefði kílóið af slægðum steinbít úr togaranum Gunnvöru á Ísafirði farið í 744 krónur. Menn yrðu stundum að kaupa fisk á yfirverði um þetta leyti til að fullnægja pöntunum.

kjon@mbl.is