Bjarney Guðmundsdóttir var fædd 23. október 1921. Hún lést 21. desember sl.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Einarsson, f. í Þorleifskoti, Laugardælasókn 13. október 1892, d. 14. maí 1951, og Guðrún Pálsdóttir, f. í Halakoti, Bræðratungusókn 4. september 1896, d. 3. ágúst 1982. Bjarney fæddist í Geirakoti í Sandvíkurhreppi og ólst upp í sveitinni ásamt systkinum sínum Sigríði Guðrúnu, f. 2. október 1924, d. 17. nóvember 2008 og Einari Guðmundssyni, f. 15. ágúst 1928, d. 22. apríl 1992.

Bjarney flutti til Reykjavíkur og fékk vinnu í Álafossi, en þar kynntist hún Jóni Ólafssyni sem seinna varð maðurinn hennar. Þau byggðu sér heimili að Háteigsvegi 50, eignuðust fjóra syni og hún annaðist heimilið af mikilli kostgæfni enda myndarkona.

Maður hennar var Jón Ólafsson, f. í Múla, Gufudalssveit 18. apríl 1916, d. 13. febrúar 1992. Synir þeirra eru: Páll Birgir, f. 4. janúar 1945, kona hans er Guðrún Baldursdóttir, Guðmundur Rúnar, f. 10. júní 1948, kona hans er Ingibjörg Jónsdóttir, Sigurður Valur, f. 4. júlí 1950, kona hans er Margrét Gunnarsdóttir, Ómar Jón, f. 5. júní 1956, kona hans er Valborg Röstad. Barnabörn, langömmubörn og langalangaömmubörn eru allstór hópur.

Útför Bjarneyjar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 21. desember 2010, og hefst athöfnin kl. 15.

Bjarney Guðmundsdóttir er látin í hárri elli, 89 ára gömul.

Alltaf var gaman að koma í eldhúsið á Háteigsveginum þar sem Bjarney og Jón bjuggu með sonum sínum. Nóg var af veitingum í boði og hægt að fá kaffisopa og jólaköku, en þar var siður að baka á föstudögum og maður kom aldrei að kofanum tómum.

Bjarney vann við ýmis störf, en lengst af vann hún á Prjónastofunni Önnu ásamt Guðrúnu Jónsdóttur (Gógó) sem var mikil vinkona Bjarneyjar. Það var alltaf kátt á hjalla á prjónastofunni við Kársnesbraut og mikið prjónað og skrafað. Stundum kíkti ég við í heimsókn og þá brugðum við okkur upp í íbúð og fengum okkur kaffi, það voru ánægjulegar stundir.

Bjarney starfaði mikið með kvenfélagi Háteigssóknar og voru þær duglegar að halda basara þar sem seldar voru kökur og annað góðgæti, og ekki má gleyma jólahlaðborðinu, en Bjarney sauð hangikjöt og bakaði alltaf heimsins bestu flatkökur fyrir jólamat Háteigssóknar. Á jólahlaðborðið komum við Gógó alltaf og komu varla jólin án þess. Ekki má gleyma jólamatnum á Háteigsveginum á jóladag þar sem allt frændfólkið hittist. Þar var boðið upp á sviðasultu, rófustöppu og hangikjöt með uppstúf, sem mér þótti skrítin samsetning, þekkti ég þetta ekki úr jólamatnum á mínu heimili. Uppfrá þessu borðaði ég sviðasultu og rófustöppu, sem ég vildi ekki borða þar til ég kynntist þessu hjá tengdaforeldrum mínum.

Mig langar sérstaklega að minnast þess þegar séra Tómas og Unnur kona hans buðu öllum eldri kvenfélagskonum í jólamat af miklum höfðingjaskap og var það mér mikil ánægja að fá að koma með Bjarneyju inn á heimili þeirra, og þakka ég fyrir það.

Við eigum svo margar góðar minningar af tíma okkar með Bjarneyju, öllum bíltúrunum sem við fórum í á sunnudögum, í Kópavoginn og til Þingvalla, í heimsóknir til ástvina og ýmislegt annað. Bjarney og Jón fóru á hverju ári til sólarstranda og ferðuðust mikið og stunduðu sólböðin og fórum við fjölskyldan með þeim tvisvar sinnum og var það yndislegur tími, við skemmtum okkur vel og börnin eiga þessa minningu í sínu hjarta.

Þótt erfitt sé, er nú komið að því að kveðja hana tengdamömmu og þótt sorgin sé mikil núna, þá mildast hún við minningarnar og þá vissu að nú er friðurinn yfir hana Bjarneyju kominn.

Mig langar sérstaklega til að þakka öllu starfsfólki á Hrafnistu í Reykjavík sem annaðist tengdamömmu með mikili natni og hlýju allt til dauðadags.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Margs er að minnast og margs er að þakka. Kveð ég þig með söknuði og vona að þú hvílist í friði.

Margrét Gunnarsdóttir.