Verðlaun Á myndinni eru f.v. Þráinn Eggertsson, Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Stefán Einarsson eiginmaður Ingu, Inga Þórsdóttir verðlaunahafi, Sigrún Ása Sturludóttir og Sveinbjörn Björnsson fv. háskólarektor.
Verðlaun Á myndinni eru f.v. Þráinn Eggertsson, Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Stefán Einarsson eiginmaður Ingu, Inga Þórsdóttir verðlaunahafi, Sigrún Ása Sturludóttir og Sveinbjörn Björnsson fv. háskólarektor. — Morgunblaðið/Ernir
Ingu Þórsdóttur prófessor voru veitt heiðursverðlaun verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright.

Ingu Þórsdóttur prófessor voru veitt heiðursverðlaun verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright. Inga hlaut verðlaunin fyrir framúrskarandi árangur í rannsóknum á sviði næringarfræði sem haft hafa áhrif á fræðslu og forvarnir meðal fjölmargra þjóðfélagshópa. Rannsóknir Ingu leiddu m.a. til þess að Mjólkursamsalan þróaði Stoðmjólk fyrir atbeina heilbrigðisyfirvalda.

„Mér þykir mjög vænt um þetta. Þetta er mikill heiður og þetta er hvatning fyrir mig og allt það unga fólk sem ég hef unnið með. Ég á marga góða yngri samstarfsmenn sem hafa verið doktorsnemar hjá mér og svo er ég með doktors- og meistaranema. Þetta er voðalega gaman fyrir okkur öll,“ segir Inga um verðlaunin í samtali við Morgunblaðið.

Bakhjarlar næstu tíu árin

Sigrún Ása Sturludóttir, sem situr í stjórn sjóðsins, veitti verðlaunin í Þjóðminjasafninu í gær að viðstöddum forseta Íslands, menntamálaráðherra, rektor Háskóla Íslands og þjóðminjaverði.

Alcoa Fjarðarál og HB Grandi hafa gert samkomulag við sjóðinn um að gerast bakhjarlar hans næstu tíu árin. Sigrún Ása kveður stuðninginn mikilvægan fyrir starfsemi sjóðsins. „Þeir veita fé til sjóðsins. Þeir gera okkur kleift að veita verðlaunin og við erum þeim alveg sérstaklega þakklát fyrir að styrkja þetta starf.“

Ásusjóður var stofnaður af Ásu til minningar um eiginmann sinn, ættingja og aðra venslamenn á hálfrar aldar afmæli Vísindafélags Íslendinga. jonasmargeir@mbl.is