Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, bárust 353 símtöl frá Þorláksmessu og fram á annan í jólum.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, bárust 353 símtöl frá Þorláksmessu og fram á annan í jólum. Karen Theodórsdóttir, verkefnisstjóri Hjálparsímans hjá Reykjavíkurdeild RKÍ, segir að þetta sé svipaður fjöldi og um síðustu jól. Hins vegar hefur símtölum fjölgað í desember miðað við sama mánuð í fyrra. Í gær höfðu 1.611 símtöl borist frá 1. desember en á sama tíma í desember fyrir ári voru símtölin alls 1.584.

Karen segir síðasta ár hafa verið mjög sérstakt og varla samanburðarhæft. Þá hafi mikið álag verið á starfsfólki og sjálfboðaliðum Hjálparsímans sem fyrst og fremst er rakið til fjárhagserfiðleika fólks í kreppunni. Á sama tíma í fyrra höfðu um 25.500 símtöl borist það ár, í samanburði við um 23.400 símtöl frá síðustu áramótum. Telst þetta ár vera mjög svipað og árið 2008 þegar Hjálparsíminn fékk um 23.500 símtöl.

„Síðasta ár var mjög sérstakt en lengi framan af þessu ári urðum við ekki vör við miklar áhyggjur fólks tengdar kreppunni. Hins vegar varð breyting núna í haust. Þá fórum við að fá fleiri erfið símtöl þar sem gætir mikils vonleysis hjá fólki og margir hafa hringt hingað í sjálfsvígshugleiðingum,“ segir Karen.

Hún segist reikna með fjölgun símtala á ný eftir áramótin. Reynsla þeirra sýni að yfirleitt sé ekki svo mikið hringt yfir sjálfa jólahátíðina en í janúar og febrúar er meira hringt. „Þá fara reikningarnir eftir jólin að berast og raunveruleikinn skellur hart á fólki,“ segir Karen.

Alls skipta um 100 sjálfboðaliðar með sér verkum við að svara í símann, sem er gjaldfrjáls og opinn allan sólarhringinn árið um kring. Að jafnaði eru tveir sjálfboðaliðar á vakt hverju sinni, auk starfsmanna Rauða krossins á þeirra vinnutíma.

Fólk á öllum aldri hringir

Karen segir vel hafa gengið að fá sjálfboðaliða til þessara starfa. Fólk með mismunandi menntun og bakgrunn svari í símann og það hafi gefist mjög vel. Aðspurð segir hún að fólk á öllum aldri hringi í Hjálparsímann og af báðum kynjum; börn sem aldraðir og fjölskyldufólk jafnt sem einstæðingar.

„Við heitum þeim fyllsta trúnaði sem í okkur hringja, setjum aldrei nein mál í eitthvert ferli nema viðkomandi samþykki það. Okkar hlutverk er fyrst og fremst að hlusta og veita upplýsingar um þau úrræði sem fyrirfinnast í samfélaginu. Við erum ekki með faglega sálfræðimeðferð en stundum gerist það að við fylgjum ákveðnum einstaklingum eftir. Þetta eru ekki allt erfið símtöl, fólk hringir einnig og þakkar okkur fyrir þjónustuna eða aðstoðina sem það hefur áður fengið hjá okkur,“ segir Karen að endingu.

símtöl í 1717

353

símtöl í Hjálparsímann frá Þorláksmessu til og með 2. í jólum

1.611

símtöl bárust í símann frá

1. desember sl. til dagsins í gær

23.400

símtöl hafa borist frá síðustu áramótum til RKÍ í númerið 1717