Narnía Virkar nógu vígalegt.
Narnía Virkar nógu vígalegt.
Ég horfði með öðru auganu á Sögur frá Narníu – Kaspían prins þegar Rúv sýndi myndina á jóladag. Þá rifjaðist upp fyrir mér hversu margir kvörtuðu yfir því að myndin væri léleg þegar hún kom fyrst í kvikmyndahúsin.

Ég horfði með öðru auganu á Sögur frá Narníu – Kaspían prins þegar Rúv sýndi myndina á jóladag. Þá rifjaðist upp fyrir mér hversu margir kvörtuðu yfir því að myndin væri léleg þegar hún kom fyrst í kvikmyndahúsin. Eftir að hafa horft á hana í annað sinn hvarflar það að mér að fólk hafi einfaldlega haft of miklar væntingar til hennar; ævintýrin um Narníu eru jú fyrst og fremst fyrir börn.

Ég held að það rugli okkur að þetta eru stórmyndir og það sem meira er, það stendur til að kvikmynda allar bækurnar. Það er ekki oft sem lagt er í slík stórvirki fyrir börn. Að sjálfsögðu hljóta framleiðendurnir að gera ráð fyrir að fá eitthvað af fullorða fólkinu í bíó líka en ég held að það sé ekki endilega rétta fólkið til að meta hvort myndirnar eru góðar eða ekki.

Sakleysi, einfaldleiki, góðlátlegur kjánagangur og ótamið ímyndunarafl eru ekki alveg á topp tíu listanum yfir það sem fólki þykir spennandi og eftirsóknarvert, því er nú miður. Þess vegna eru Sögur frá Narníu eitthvað svo ófullnægjandi; það vantar meiri kænsku, meiri grimmd, flóknari söguþráð og best væri ef Aslan einfaldlega rifi óvin dagsins á hol. Krúttlegur, kristilegur boðskapurinn er að minnsta kosti klárlega ekki nóg fyrir fullorðið fólk.

Hólmfríður Gísladóttir

Höf.: Hólmfríður Gísladóttir