Kristjana Höskuldsdóttir fæddist í Vatnshorni í Skorradal í Borgarfjarðarsýslu 12. júlí árið 1936. Hún lést á Droplaugarstöðum 5. desember 2010.

Útför Kristjönu Höskuldsdóttur var gerð frá Neskirkju 20. desember 2010.

Það var sólbjartur fagur sumarmorgunn í Fram-Skorradal, 12. júlí 1936. Ég vaknaði í rúmi ömmu minnar undir suðursúð gömu torfbaðstofunnar í Vatnshorni. Sólin skein inn um guggann á austurstafni. Hafði vaknað við sársaukahljóð frá móður minni og var ekki slíku vön. – „Eitthvað stangar mömmu“ varð mér að orði. Nú kvað við annað hjóð. „Hvað me-ar nú?“, var mín áyktun. – Um veturinn hafði ég náð að heilsa upp á amalynda hrúta sem renndu á garðabandið úti í fjárhúsum þar sem ég gekk um garðann, í þeirri von að koma á mig höggi. – Handan við sundið milli rúmanna sat hann Bjarni afi minn og talaði hlýlega og róandi til mín og tjáði mér að hér myndu engir slíkir óvættir á ferð, heldur væri hér að kveðja sér hjóðs lítið systkini mitt. Það leið aðeins örstutt stund þar til Ásta ljósmóðir kom inn fyrir græna hengið sem skipti baðstofunni í tvö spil. Hún hélt á hvítum stranga í handarkrika sínum og upp úr þeim handklæðisreifum kíkti lítið barnsandlit með mikið dökkt hár á höfði. „Sjáðu hvað þú hefur eignast fallega litla systur,“ sagði Ásta og brosti sínu heillandi brosi.

Hún litla systir mín óx og náði góðum þroska eins og blómskrúð dalsins. Kvik og síviljug til vika og verka. „Ég skal hlaupa“, var hennar viðkvæði. Ung var hún þegar hún leit á það sem heilaga skyldu sína að skúra gólfin um helgar. Margar á ég minningar frá því þegar við vorum að þrífa kjallarann eða flytja upp á loft á vorin, eftir að við vorum flutt í nýja íbúðarhúsið. Stinga upp garða og setja niður kartöflur. Lífið var æskuglöðum unglingum leikur; fara í berjamó, vitja um silunganet, útreiðartúrar og smalamennskur. Heyskapur, þegar vel viðraði. „Dalurinn ljúfi sem lokkar og seiðir – gefðu mér bernskunnar unaðsdraum á ný,“ segir Jón frá Ljárskógum.

Hve allar mínar minningar um systur mína eru bjartar og hlýjar! Man hana fermingarbarn í Fitjakirkju og þykka jarpa hárið hennar breiddist um herðar og bak og nam við bekkinn þar sem hún sat. Sautján ára var hún orðin fær um að leika tónlistina sem tilheyrði fermingarathöfn. Seinna átti hún svo eftir að mennta sig meira á því sviði og leika á fullkomnari hljóðfæri í stærri kirkjum. Man hana unga og glæsilega brúði í síðum hvítum kjól sem hún sjálf hafði saumað í Kvennaskólanum á Blönduósi. – Man hve heimili hennar í Melaleiti var ætíð snyrtilegt og fallegt og dæturnar vel klæddar í heimagerðum flíkum. Sami þokki var yfir heimili þeirra hjóna eftir að þau áttu sitt annað heimili á Tómasarhaga 40. Þar var afkomendunum ætíð skjól og griðastaður og þau studdu barnabörnin til þroska. Allur lífsstíll systur minnar bar vott um listræna fágun og sjálf var hún ímynd hreysti og lífsgleði. Heimilið var hennar unaðsreitur og öll bústörf, úti sem inni, léku henni í höndum.

Engan „skúlptúr“ sé ég fara betur við landslag en vel hirt bændabýli og engin listaverk taka fram fallegum búfénaði í sæld.

Gott var hennar dagsverk. Hennar er gott að minnast. Ró verði hvíldin í bernskudalnum.

Sigríður Höskuldsdóttir.