Einvalalið Flestar vinsælustu sveitir landsins munu spila í Háskólabíói á fimmtudagskvöldið til styrktar SKB. Sálin hans Jóns míns á sviði.
Einvalalið Flestar vinsælustu sveitir landsins munu spila í Háskólabíói á fimmtudagskvöldið til styrktar SKB. Sálin hans Jóns míns á sviði. — Ljósmynd/Halldór Kolbeins
Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is Á hverju ári síðastliðin þrettán ár hafa tónlistarmenn haldið tónleika fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna (SKB) í Háskólabíói við Hagatorg rétt fyrir áramótin. Tónleikarnir verða haldnir á fimmtudaginn, hinn 30.

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

Á hverju ári síðastliðin þrettán ár hafa tónlistarmenn haldið tónleika fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna (SKB) í Háskólabíói við Hagatorg rétt fyrir áramótin. Tónleikarnir verða haldnir á fimmtudaginn, hinn 30. desember. Á undanförnum árum hafa yfir 34 milljónir króna safnast fyrir SKB. Tónleikarnir voru fyrst haldnir í desember árið 1998. Hljóð- og ljósakerfi hefur verið lánað af EB kerfi á hverju ári frá upphafi og eins hefur Háskólabíó lánað aðstöðuna endurgjaldslaust frá upphafi. Frændi Einars Bárðarsonar veiktist ungur að krabbameini sem varð til þess að hann fékk tónlistarmenn til að halda tónleika til styrktar félaginu. „Hann Einar Björnsson hjá EB kerfum á jafn mikinn heiður af þessu og ég,“ segir Einar. „Og ekki væri þetta hægt nema af því að tónlistarmennirnir eru tilbúnir að gefa vinnu sína í þetta.“ En í ár eru það stórhljómsveitir eins og Sálin hans Jóns míns, Dikta, Ingó, Sveppi, Friðrik Dór, Skítamórall, Jónsi og fleiri úr landsliði íslenskra tónlistarmanna sem munu spila. „Miðasalan er á fullu á midi.is. Við höfum aldrei opnað hana áður fyrir jól, en gerðum það núna og það var strax búið að selja nokkur hundruð miða fyrir jólin þannig að það er um að gera að kaupa miða sem fyrst. Það er gefandi að mæta á þessa tónleika og skemmta sér vitandi að hver einasta króna fari óskert í þetta málefni,“ segir Einar.

Óskar Örn, framkvæmdastjóri SKB, segir að þeir séu bara hamingjusamir þiggjendur á þessum tónleikum. „Hann Einar sér bara um þetta. Við höfum sáralítið komið að þessu fyrir utan að mæta og njóta skemmtilegra tónleika og þiggja þetta fé sem til safnast. Þetta skiptir máli í að hjálpa okkur til að veita þeim börnum sem greinast með krabbamein og fjölskyldum þeirra þjónustu,“ segir Óskar Örn.

TÓNLIST

Stuðhljómsveitir

Að sögn Einars Bárðasonar hefur aldrei nokkur hljómsveit sagt nei við því að gefa vinnu sína til styrktar SKB á þessu einu af síðustu kvöldum ársins. En aðeins tvær hljómsveitir hafa náð að vera öll árin sem þau hafa verið starfandi og það er Sálin hans Jóns míns og Skítamórall. Að vanda munu þær spila á fimmtudagskvöldið. En auk þeirra eru nýrri hljómsveitir einsog Dikta, Stórsveitin Buff og hinn heillandi Friðrik Dór sem hefur sjarmerað unga fólkið uppúr skónum undanfarin ár.