Blekkingarleikir ríkisstjórnarinnar hafa reynst dýrkeyptir

Þrátt fyrir að stjórnkerfi fiskveiða hafi í meginatriðum reynst farsælt og sjávarútvegur verið traust undirstaða íslensks atvinnulífs eftir fall bankanna, ákvað núverandi ríkisstjórn að setja þessa atvinnugrein í uppnám með því að boða viðamiklar breytingar á starfsumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja. Til að ná fram þessu markmiði sínu beitti ríkisstjórnin aðferð sem hún notar iðulega þegar hún vill ná fram vafasömum málum, hún boðaði til samráðs.

Skipuð var fjölmenn nefnd ólíkra hagsmunaaðila og stjórnmálaflokka, sáttanefndin svokallaða. Fyrirfram mátti telja að nánast útilokað væri að í þessum sundurleita hópi næðist sátt um eina tillögu, en svo fór engu að síður að nánast full samstaða varð um að leggja til ákveðna leið, samningaleiðina svokölluðu.

Nú var ríkisstjórninni vandi á höndum. Samkomulag hafði náðst um leið sem í skýrslu sáttanefndarinnar er lýst þannig: „Í meginatriðum byggist samningaleið á aflamarkskerfi og að breyta núverandi aflahlutdeild aðila að tilteknu hlutfalli aflahlutdeilda í samningsbundin réttindi.“ Af meginniðurstöðu skýrslunnar er ljóst að vilji sáttanefndarinnar stóð ekki til þess að umbylta fiskveiðistjórnarkerfinu og stefna með því undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar í stórhættu. Sátt hafði náðst um að stíga varlega til jarðar og leitast við að gera breytingar sem röskuðu ekki um of starfsgrundvelli greinarinnar.

Ef marka má viðbrögð ríkisstjórnarinnar eftir að sátt náðist, og orð einstakra ráðherra um framhaldið, ekki síst forsætisráðherra, er ljóst að ríkisstjórnin telur sig hafa fundið leið framhjá niðurstöðu sáttanefndarinnar. Samstarfinu breiða sem ríkisstjórnin stærði sig af þar til niðurstaða lá fyrir, var skyndilega hætt. Í stað hinnar breiðu nefndar var sett á laggirnar nefnd þingmanna stjórnarflokkanna og í hana skipaðir sumir af þeim sem hvað harðast hafa gengið fram í því að reyna að koma sjávarútveginum á kné. Stjórnvöld hafa síðan verið mjög treg að ræða við hagsmunaaðila en vinna í laumi frumvarp sem útlit er fyrir að muni aðeins í orði kveðnu taka mið af niðurstöðu sáttanefndarinnar.

Ríkisstjórnin var upphaflega mynduð með aðstoð frá stjórnarandstöðunni gegn fyrirheitum um samráð. Með það fyrirheit var ekkert gert. Ríkisstjórnin hefur síðan gert samkomulag við aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir en efndirnar hafa engar orðið. Samráð við breiða hópa úr samfélaginu og þverpólitískar nefndir eru sú lausn sem ríkisstjórnin telur vera á hverjum vanda. Hagsmunaaðilar og stjórnarandstaða láta enn glepjast af fagurgalanum og taka þátt í hverju sýndarsamráðinu á fætur öðru. Með þessu hefur ekkert náðst fram nema að auðvelda ríkisstjórninni að knýja fram stórskaðlega stefnu sína og gera henni kleift að láta líta út fyrir að hún starfi með öðrum og taki tillit til ólíkra sjónarmiða. Þetta hefur reynst dýrkeypt á ýmsum sviðum, en fátt jafnast þó á við tjónið sem þessi blekkingarleikur ríkisstjórnarinnar hefur valdið og gæti átt eftir að valda í sjávarútvegi.