Íþróttamenn Hreinskilnir.
Íþróttamenn Hreinskilnir. — Morgunblaðið/Kristinn
Íþróttafréttir sem fylgja í lok fréttatíma sjónvarps virka yfirleitt fremur hvimleiðar. En þarna, eins og í svo mörgu, er ekki allt sem sýnist.

Íþróttafréttir sem fylgja í lok fréttatíma sjónvarps virka yfirleitt fremur hvimleiðar. En þarna, eins og í svo mörgu, er ekki allt sem sýnist. Íþróttamenn eru nefnilega svo til eina stétt landsins sem er í stöðugri sjálfskoðun og mælingu á eigin frammistöðu. Íþróttamaður mætir í stutt sjónvarpsviðtal og segir: „Ég lék ömurlega, ég gaf eftir og auðvitað mun ég taka mig á. Svona frammistaða gengur náttúrlega ekki.“ Á svip hans sést að hann er verulega svekktur út í sjálfan sig.

Er þetta ekki einmitt til eftirbreytni? Væri ekki góð tilbreyting í því ef eins og eitt stykki ráðherra horfði framan í kvikmyndatökuvél og segði: „Ég klúðraði málum gjörsamlega. Auðvitað er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á þetta. Ef ég ætla að halda áfram svona þá mun ég bara klúðra málum enn meir.“ En svona talar enginn stjórnmálamaður.

Hinn venjulegi daglaunamaður mætti líka taka sér sjálfskoðun íþróttamanna til fyrirmyndar og segja: „Ég lagði mig ekkert fram síðasta mánudag í vinnunni og gaf alveg eftir seinnipartinn og skilaði eiginlega engu. Var aðallega á Fésbókinni. Ég mun taka mig á því svona frammistaða gengur náttúrlega ekki.“

Kolbrún Bergþórsdóttir

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir