Vinsælir Steve Evans og hans menn í Crawley hafa mikið verið til umfjöllunar hjá breskum fjölmiðlum að undanförnu og hér ræðir Evans við fréttamenn á heimavelli félagsins áður en liðið lagði af stað norður til Manchester.
Vinsælir Steve Evans og hans menn í Crawley hafa mikið verið til umfjöllunar hjá breskum fjölmiðlum að undanförnu og hér ræðir Evans við fréttamenn á heimavelli félagsins áður en liðið lagði af stað norður til Manchester. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
England Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Þeir ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur leikmenn utandeildaliðsins Crawley Town en seinnipartinn í dag rennur upp stór stund hjá leikmönnum liðsins. Þeir mæta nefnilega Manchester United í 5.

England

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Þeir ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur leikmenn utandeildaliðsins Crawley Town en seinnipartinn í dag rennur upp stór stund hjá leikmönnum liðsins. Þeir mæta nefnilega Manchester United í 5. umferð ensku bikarkeppninnar og það í „leikhúsi draumanna“, sjálfum Old Trafford.

Það skilja 93 sæti á milli Manchester United og Crawley Town en Crawley spilar í Blue Square-deildinni, sem er úrvalsdeild utandeildaliðanna og sú fimmta efsta í enska deildapíramídanum.

Ólíkt öðrum liðum á þessum slóðum hefur félagið talsverða fjármuni til umráða, mun meiri en flest lið í 2. og 3. deild, og það hefur orðið til þess að hin utandeildarliðin hafa nefnt Crawley „Manchester City“. Nýir eigendur komu að félaginu síðasta sumar, fjárfestu rækilega og sögðu Steve Evans knattspyrnustjóra að setja saman lið sem ynni sig strax upp í deildakeppnina.

Crawley hefur ekki tapað leik á árinu en liðið tapaði síðast leik um miðjan desember. Meðal fórnarlamba Crawley í bikarnum á þessu tímabili er 1. deildarliðið Derby sem féll úr leik fyrir utandeildaliðinu í 3. umferð keppninnar en Crawley hefur aldrei náð svona langt í bikarnum frá því félagið var stofnað 1896.

Barátta Davíðs gegn Golíat

Sigur Crawley á Manchester United í dag yrði án efa óvæntustu úrslitin í sögu þessarar elstu bikarkeppni heimsins en viðureigninni má líkja við baráttu Davíðs gegn Golíat.

Svo skemmtilega vill til að gælunafn Crawley er það sama og hjá Manchester United, það er rauðu djöflarnir, en Crawley er fyrsta utandeildaliðið í 17 ár sem kemst í 16-liða úrslit bikarsins og það sjötta frá seinni heimsstyrjöld.

Á leið í deildakeppnina?

Crawley er sem stendur í öðru sæti í úrvalsdeild utandeildanna, á eftir AFC Wimbledon, og í sætunum á eftir Crawley eru þekkt félög, Luton og Wrexham. Efsta liðið vinnur sér keppnisréttinn í deildakeppninni, eða í 3. deild, en liðin í 2.-5. sæti fara í umspil um eitt laust sæti. Crawley stendur vel að vígi. Liðið er þremur stigum á eftir AFC Wimbledon en góður árangur í bikarnum hefur orðið til þess að liðið á fjóra leiki til góða á toppliðið.

Það þarf varla að nefna það að leikurinn á móti toppliði ensku úrvalsdeildarinnar og því liði sem oftast hefur hampað enska bikarnum eða 11 sinnum, er stærsti leikur Crawley frá upphafi og leikmenn liðsins hafa eflaust átt erfitt með svefn í nótt. Reiknað er með að 9 þúsund stuðningsmenn Crawley fylgi liði sínu á Old Trafford og þó svo að Sir Alex Ferguson, stjóri United, komi til með að hvíla margar af stjörnum sínum mun það líklega taka liðsmenn utandeildaliðsins einhverjar mínútur að átta sig á því hvar þeir eru og við hvaða andstæðinga þeir eru að etja.

Sergio Torres

Eins og kannski gefur til skilja eru nöfn leikmanna Crawley nær óþekkt en hver veit nema Torres geri leikmönnum United grikk í dag. Þó ekki Fernando Torres heldur Argentínumaðurinn Sergio Raúl Torres sem Crawley keypti frá Peterborough fyrir tímabilið og greiddi fyrir hann 100 þúsund pund, 19 milljónir íslenskra króna. Nafni hans, Fernando Torres, var á dögunum seldur frá Liverpool til Chelsea fyrir 9,3 milljarða!!

Sir Alex segir að meðan ævintýri eins og átt hefur sér stað hjá Crawley gerist í bikarnum sé þessi keppni ekki að lognast út af eins og sumir hafa haft áhyggjur af.

Besta utandeildaliðið í langan tíma

„Menn eru að tala um að bikarkeppnin sé að deyja en hún mun ekki gera það svo lengi sem höfum lið eins og Crawley og þann árangur sem það hefur náð. Við töpuðum fyrir Leeds á heimavelli í bikarnum á síðustu leiktíð og það var ekki auðvelt að taka því. Leikmenn Leeds börðust eins og grenjandi ljón og við munum sjá það sama í þessum leik. Leikmenn Crawley munu verða fastir fyrir, það er engin leið önnur fyrir þá og fyrir það standa þeir,“ sagði Ferguson við fréttamenn í gær.

„Við berum virðingu fyrir þeirri staðreynd að Crawley er besta utandeildaliðið sem fram hefur komið í nokkuð langan tíma og svo virðist sem töluverðum peningum hafi verið eytt í leikmannakaup.Við reiknum með erfiðum leik,“ sagði Ferguson.

Byrjaðu með 12 inni á vellinum

Steve Evans, knattspyrnustjóri Crawley, segist hafa þegið mörg góð ráð fyrir stórleikinn en hann og lærisveinar hans hafa talið niður dagana, klukkustundirnar og mínúturnar frá því þeir fengu að vita hver mótherjinn yrði.

„Uppáhaldsráðið sem ég hef fengið kom frá Alex McLeish, knattspyrnustjóra Birmingham. Hann sagði við mig: Byrjaðu með tólf menn inni á vellinum og vonaðu að enginn taki eftir því.“

Crawley Town
» Félagið er frá 100 þúsund manna bæ, skammt suður af London.
» Crawley hefur ávallt leikið í héraðsdeildum en komst fyrst í úrvalsdeild utandeildanna árið 2004. Það hefur verið atvinnulið frá þeim tíma.
» Félagið var nánast gjaldþrota á síðasta ári vegna skattaskulda en fékk þá fjársterka aðila til liðs við sig, gerði upp allar skuldir og stefnir nú hraðbyri á sæti í deildakeppninni.