Ungbarnakaffihús Tinna Kristjánsdóttir rekur Iðunnareplið í Templarasundi.
Ungbarnakaffihús Tinna Kristjánsdóttir rekur Iðunnareplið í Templarasundi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Iðunnareplið nefnist nýtt kaffihús fyrir ung börn og foreldra þeirra við Templarasund í Reykjavík.

Iðunnareplið nefnist nýtt kaffihús fyrir ung börn og foreldra þeirra við Templarasund í Reykjavík. Tinna Kristjánsdóttir rekur kaffihúsið sem hún fékk hugmyndina að þegar hún var í fæðingarorlofi en henni fannst vanta stað þar sem foreldrar eru velkomnir með ung börn sín og geta drukkið kaffið sitt eða gefið brjóst í ró og næði í barnvænu umhverfi.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Ég fékk hugmyndina að þessu kaffihúsi þegar ég var í fæðingarorlofi með strákana mína tvo, árin 2007 og 2009. Ég var farin að skipuleggja hugmyndina að kaffihúsinu í fyrsta fæðingarorlofinu, svo kom hrun og ég guggnaði á þessu, en með seinni strákinn ákvað ég að þetta yrði að gerast.

Ég er mikil félagsvera og fann hvað maður getur einangrast í fæðingarorlofi. Yngri strákurinn fæðist að sumri til og þá fór ég að taka eftir því að þótt maður vildi gjarnan setjast á kaffihús var maður ekkert ægilega velkominn sem er alveg skiljanlegt gagnvart barnlausu fólki sem nennir ekki að hlusta á vælið í börnunum. Yfir sumartímann er líka mikið af ferðamönnum og augnaráðið sem maður fékk við það að gefa brjóst var oft ekki fagurt, það var augljóst að blygðunarkennd þeirra margra var særð. Þannig að ég var næstum farin að setjast inn á klósett til að gefa brjóst, ofan á það var engin aðstaða fyrir börn, það var heppni ef það var skítugt skiptiborð inni á einu klósettinu. Þar að auki var eldri strákurinn minn kveisubarn sem þýddi það að ég mátti ekki éta nokkurn skapaðan hlut og það var erfitt að fá eitthvað eftir sínum þörfum á kaffihúsunum,“ segir Tinna þegar hún er spurð út í ástæðu þess að hún ákvað að opna kaffihús sérsniðið að þörfum foreldra ungra barna.

„Markmiðið er að vera með stað þar sem foreldrar ungra barna eru velkomnir með börn sín og geta verið afslappaðir,“ bætir Tinna við.

Matur fyrir mæður

Það má með sanni segja að hún hafi hugsað út í allt sem viðkemur mjólkandi mæðrum og börnum þeirra þegar Iðunnareplið varð til.

„Matseðillinn er gerður þannig að mæður sem eru með kveisubarn á brjósti ættu að geta borðað allt af honum. Þetta er léttur kaffihúsamatseðill án aukefna og ofnæmisvaka. Maðurinn minn er meistarakokkur og þróaði matseðilinn fyrir okkur. Fyrir börnin er ég með maukseðil sem hefur fengið rosalega góðar undirtektir. Ég mauka á staðnum úr lífrænu hráefni eftir pöntunum. Fyrir eldri krakka er boðið upp næringarríkan heimilismat, t.d. plokkfisk og hakk og spagettí,“ segir Tinna.

Barnavagnar leika stórt hlutverk hjá foreldrum ungra barna og nauðsynlegt að hafa góða aðstöðu fyrir þá. „Það er rampur svo það er auðvelt að koma vögnunum inn og út, svo er ég með sérstakt vagnasvæði inni. Það eru undirgöng við hliðina á okkur þar sem hægt er að láta börnin sofa úti og fylgjast með þeim í gegnum glugga, svo ætlum við að setja upp myndavél úti sem varpar myndum á skjá inni þannig að það verði hægt að fylgjast með vögnunum og svo erum við að sjálfsögðu með barnapíutæki. Með fyrsta barn er maður sérstaklega stressaður, getur ekki lagt vagninn eða barnið frá sér og ég geri allt til að minnka það stress.“

Fleira er gert til að foreldrar geti setið rólegir og drukkið sitt kaffi. Leikherbergi er á staðnum með myndavél í sem varpar því sem á sér stað í herberginu á skjá frammi í aðalsalnum. „Þá þurfa foreldrar ekki stanslaust að vera með áhyggjur af því hvað barnið er að gera, þeir geta alltaf fylgst með því og ef eitt barn fer að gráta þurfa ekki allir foreldrarnir að standa upp. Ég er líka með lítið kósíherbergi þar sem er skipti- og gjafaaðstaða. Það eru barnastólar við hvert einasta borð svo það þarf ekki að slást um þá, ömmustólar og brjóstagjafapúðar eru líka í boði.

Ég reyni að hugsa út í allt en við erum að sjálfsögðu að þróa okkur og á staðnum er hugmyndakassi þar sem allar ábendingar um eitthvað sem okkur hefur yfirsést eru vel þegnar,“ segir Tinna.

Vinskapur myndast

Fræðslumorgnar eru að fara af stað í Iðunnareplinu þar sem boðið verður upp á allskonar dagskrá fyrir foreldra. „Við verðum með brjóstagjafaráðgjafa, ungbarnanuddara, næringarráðgjafa, jógakennara, íslenskir barnabókahöfundar koma og lesa upp úr bókum sínum, Tónagull ætlar að koma til okkar bráðlega og vera með tónlistarnámskeið fyrir börn að níu mánaða aldri og ýmislegt fleira.“

Tinna hefur unnið á veitinga- og kaffihúsum síðustu tíu árin og veit fátt skemmtilegra en að standa í svona rekstri. „Skemmtilegasta sem ég veit er þegar ég hef fullt hús af æpandi börnum sem eru að skemmta sér eins og ég veit ekki hvað. Það er líka gaman að finna hvað það var rosalega mikil þörf á svona stað. Þrátt fyrir að hafa bara haft opið í mánuð erum við þegar komin með góðan kúnnahóp. Það þarf svona starfsemi svo að mömmur hittist og fari að spjalla saman, ég hef séð vinskap myndast hér, mömmurnar koma hingað einar með börnin sín og setjast hver í sitt hornið og byrja svo að spjalla saman og nokkrum dögum seinna eru þær farnar að hittast. Það er einmitt eitt af því sem ég vildi stuðla að.“

IÐUNNAREPLIÐ

Kjörið fyrir morgunhana

Iðunnareplið er í Templarasundi, á milli Austurvallar og Tjarnarinnar. Staðurinn er opnaður klukkan átta virka morgna og klukkan níu um helgar og er opinn til átta á kvöldin alla daga.

„Ég ákvað að opna svona snemma því sum börn vakna klukkan sex sjáðu til og það nenna ekki allir að hanga heima hjá sér svona lengi. Börnin mín eru ósköp miklar svefnpurkur en mörg börn vinkvenna minna eru svona miklir morgunhanar. Annars eru ekki margir mættir á slaginu átta en um klukkan níu er oft farið að vera nóg að gera,“ segir Tinna.

www.idunnareplid.is Iðunnareplið er líka á Facebook.