Vigdís Hauksdóttir
Vigdís Hauksdóttir
Eftir Vigdísi Hauksdóttur: "Af mikilli „næturvinnu“ við lyklaborðið hélt ég að ráðherrann hefði tamið sér tækni veraldarvefsins og tileinkað sér svör Hr. Google."

Það er sorglegt að Össur Skarphéðinsson skuli viljandi misskilja spurningu mína – hvort það samræmist ákvæðum 55. gr. Vínarsamningsins að sendiráð ESB skipti sér af innanríkismálum. Utanríkisráðherra ber ríka skyldu til að svara þinginu með réttar upplýsingar þegar eftir þeim er leitað – enda er það m.a. hlutverk þingmanna að hafa eftirlitsskyldu með framkvæmdavaldinu. Heykist ráðherrann á að svara spurningunni – býr til nýja og svarar sjálfum sér? Notar ráðherrann spegilinn – ég, um mig, frá mér, til mín? Var nótt er hann leit upp og sá svartnætti? Af því má ráða að ekki hafi sést handaskil því í svarinu kemur fram þessi setning: „Þá myrkvast málið“ – ég sem taldi að Össur hefði hætt næturgöltri – og bloggum.

Af mikilli „næturvinnu“ við lyklaborðið hélt ég að ráðherrann hefði tamið sér tækni veraldarvefsins og tileinkað sér svör Hr. Google. Ég varð því ekki hissa er hann svaraði spurningunni sem hann sjálfur samdi – að hann vísaði í rangan Vínarsamning – Vínarsamninginn um stjórnmálasamband. Tilgangurinn helgar meðalið. Það vill nefnilega þannig til að Vínarsamningurinn sem fjallar um ræðissamband kemur fyrstur upp í Hr. Google er leitarorðið „Vínarsamningurinn“ er slegið inn. Svo ótrúlega vill til að samningurinn er m.a.s. vistaður í ráðuneyti næturbloggarans sjálfs.

Í 55. gr. samningsins sem ber yfirskriftina „Virðing fyrir lögum og reglum viðtökuríkisins“ stendur:

„1. Öllum þeim sem njóta forréttinda og friðhelgi ber skylda til að virða lög og reglur viðtökuríkisins, en slík skylda skerðir þó ekki forréttindi þeirra og friðhelgi. Þeim er einnig skylt að skipta sér ekki af innanlandsmálum í því ríki. 2. Ræðisstofnunarsvæðið skal ekki nota á nokkurn þann hátt sem ósamrýmanlegur er framkvæmd ræðisstarfa.“

Næturbloggarinn heldur að við séum gengin í ESB – svo mikil er þrá hans eftir nýlenduherrunum að ekkert annað virðist hafa komist í koll hans þessa myrkvuðu nótt en Vínarsamningurinn um stjórnmálasamband. Augljóslega hefur bloggarinn tekið upp símtólið og hringt í löglærða fulltrúa ráðuneytisins því í svarinu segir: „Hvorki löglærðum embættismönnum ráðuneytisins né ráðherra hefur tekist að finna umrædda 55. grein í Vínarsamningnum um stjórnmálasamband. Fyrirspyrjandi hefur að líkindum farið samningavillt og er að vitna til 55. greinar í öðrum samningi, sem líka er kenndur við Vín. Sá er frá 24. apríl 1963 og er um ræðissamband.“ Hversu dimmt getur orðið í kolli utanríkisráðherra? Að lokum rofar til og næturbloggarinn segir: „Ráðuneytið fær hins vegar ekki séð að aðkoma sendiráðs ESB að kynningarmálum sambandsins hér á landi stangist á nokkurn hátt á við efnisatriði þessara greina. Segja má á kjarnyrtri íslensku að sú starfsemi falli að Vínarsamningnum eins og flís við rass. Svar ráðherra við fyrrgreindri spurningu háttvirts fyrirspyrjanda er því játandi.“

Tekur síðan steininn úr er hann nefnir sendiráð Bandaríkjanna hér á landi og telur það vera fordæmisgefandi fyrir sendiráð ESB. Öllum brögðum er beitt til að koma hálfsannleik á framfæri.

Höfundur er lögfræðingur og þingmaður fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík.

Höf.: Vigdísi Hauksdóttur